150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú einhver besta ræða fyrir einkavæðingu bankanna sem ég hef heyrt lengi; við viljum ekki sitja uppi með alla þessa útlánaáhættu í íslenska fjármálakerfinu á ábyrgð skattgreiðenda. Það kom líka í ljós í hruninu að það var bara ágætt að ekki varð allt beint tjón ríkisins í gegnum hlutaféð og útlánin. Það er ágætt að hafa það í huga í tengslum við það hvort við viljum vera með alfarið ríkisrekið bankakerfi eða ekki. Útlánatapið er þá á kostnað ríkisins ef illa fer.

Við náum auðvitað ekki að tæma þessa umræðu hér. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er á ákveðinn hátt óbeinn skaði ríkissjóðs ef útlánin úr ríkisbönkunum endurheimtast ekki, eins og gæti mögulega átt við í þessu tilviki. En við getum ekki botnað þessa umræðu vegna þess að það kostar miklu dýpri skoðun, t.d. hvaða tryggingar eru fyrir einstökum lánum og hvaða stöðu bankarnir væru í gagnvart félaginu að öðru leyti ef á þetta reyndi.