150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:02]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef hæstv. ráðherra telur þetta vera nægjanlegt, þ.e. að veðið nái til vörumerkis, bókunarkerfis og lendingarheimilda, langar mig að spyrja hann: Hvert er mat ráðuneytisins á virði þessara eigna í veðinu? Hefur verið lagt mat á virði vörumerkisins eða bókunarkerfisins eða lendingarheimildanna? Mér sýnist þær tölur ekki koma fram. Við erum að reyna að tryggja hér 15 milljarða og Ríkisendurskoðun, sem er ekki hvaða stofnun sem er, bendir á að þessi veð dugi ekki. Þá hlýtur fjármálaráðuneytið að vera með einhverjar hugmyndir um virði þeirra eigna sem liggja hér að baki eða hvað? Hefur það mat kannski ekki farið fram eða er það flókið? Það væri mjög gagnlegt fyrir okkur að heyra úr þessum stól hvernig það hefur verið metið af hálfu ráðuneytisins.