150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsögu með þessum tveimur málum sem við ræðum nú samhliða. Þetta er fyrir margra hluta sakir bæði stórt mál og flókið hvernig best er að takast á við. Það er mikilvægt að við reynum að vanda eins mikið til verka og nokkur kostur er því að afleiðingarnar af því hvernig til tekst geta orðið miklar. Það þarf svo sem ekki að orðlengja það að hér er mikil óvissa. Það hafa orðið mikil áföll í ferðaþjónustu og í flugrekstri. Víða um heim hafa ríkisstjórnir eða ríkisvaldið gripið þar inn í og komið til aðstoðar og það er gert með margvíslegum hætti.

Það liggur í augum uppi að mikilvægt er að tryggja samgöngur til og frá landinu. Um það getum við öll verið sammála. Við getum líka verið sammála um að það er mikill mannauður og mikið virði í félaginu Icelandair eða Icelandair Group, en við þurfum að íhuga mjög vandlega hvernig staðið er að verki og hvað er skynsamlegast að gera. Félagið Icelandair Group er að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða landsmanna. Ég held að ég fari rétt með að um 43% af eignarhaldinu eru í eigu íslenskra lífeyrissjóða og af sjálfu leiðir að þar með er félagið beint eða óbeint í eigu landsmanna allra. Með því að veita ríkisábyrgð, ábyrgjast lánalínur frá ríkisbönkunum, er félagið komið að meira eða minna leyti í fangið á stjórnvöldum. Þá fara mörkin á milli einkarekstrar og ríkisrekstrar eða opinbers rekstrar að verða óljós.

Stóra málið sem við þurfum að skoða — og ég ætla ekki að hafa uppi neinar stórar fullyrðingar um það á þessu stigi því að við erum að fara yfir málið í fjárlaganefnd og erum þegar byrjuð á því þar og farin að kalla til gesti — er að átta sig á því hvort Icelandair og áætlanir þess til framtíðar séu þess eðlis að líklegt sé að það haldi velli. Í því samhengi þarf að velta fyrir sér hvort einhverjar aðrar leiðir kunni að vera færar til að ná því grundvallarmarkmiði að tryggja samgöngur til og frá landinu. Er þetta eina leiðin til að tryggja þær eða eru aðrar leiðir færar?

Við vitum að mikil ólga er í flugheiminum. Það er mjög margt að gerast. Það eru mörg flugfélög í erfiðleikum og sum þeirra munu ekki hafa það af. Við vitum ekki hvernig fólk vill ferðast í framtíðinni og hversu mikið það vill ferðast. Við vonum auðvitað að fólk muni vilja ferðast og við vonum öll að það vilji koma hingað til Íslands og að ferðaþjónustan rétti úr kútnum. Þess vegna er mikilvægt að við áttum okkur á því hvort við séum að fara rétta leið.

Það kemur fram í texta frumvarpsins að þessi leið sé m.a. farin til að hafa jákvæð áhrif á aðkomu fjárfesta. Þarna er ríkið að leggja félaginu lið og liðka fyrir því að fjárfestar líti á félagið sem vænlegan fjárfestingarkost. Fyrsta spurning gæti verið sú, og það kom m.a. fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, hvort fjárfestar séu tilbúnir til að leggja félaginu lið með fjármagni, það væri prófraunin á áætlanir félagsins. Ég er ekki með neinar fullyrðingar í eina eða neina átt, ég vil að það sé alveg skýrt, en engu að síður verður maður að spyrja: Ef áætlanir félagsins eru raunhæfar og þess eðlis að þær séu aðlaðandi fyrir fjárfesta, er það ekki nóg? Er ekki nóg að félagið sé búið að endurskipuleggja sinn rekstur, það sé búið að setja fram rekstraráætlanir og spár um framtíðina sem gefa til kynna að það muni komast í gegnum þessa erfiðleika og eiga sér framtíð? Er það ekki nóg? Af hverju þarf ríkið að koma þar inn?

Síðan má líka velta fyrir sér öðrum sviðsmyndum. Það eru auðvitað aðrir möguleikar í stöðunni. Í fyrsta lagi fljúga mörg flugfélög til og frá landinu. Vissulega hefur dregið úr því upp á síðkastið af ástæðum sem við vitum öll, en það eru mörg sterk flugfélög sem maður myndi giska á að myndu fljúga til og frá Íslandi ef þau teldu það ábatasamt. Þá held ég að sé líka vert að nefna í þessu samhengi öllu að það er búið að stofna íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi og ef marka má yfirlýsingar þess er það tilbúið að hefja rekstur og sé raunverulega ekkert að vanbúnaði að hefja hann og geti byrjað að sinna íslenskum markaði með mjög skömmum fyrirvara. Það má spyrja sig að því hvort þar kunni að vera kostur sem vert væri að gefa gaum og hvort slíkt félag gæti byggst upp með þeim hætti og þeim hraða að það gæti fyllt upp í þetta skarð.

Við skulum ekkert horfa fram hjá því að þetta er allt saman áhættusamt. Þó að því sé að sjálfsögðu ekki spáð hér og þaðan af síður óskað þá verðum við að vera meðvituð um að svo kann að fara í fyrsta lagi að ekki takist að fá fjárfesta að Icelandair í þessari umferð. Þá gerist auðvitað eitthvað annað. Þá mun félagið eða eigendur þess þurfa að grípa til annarra ráðstafana til að reyna að halda félaginu á floti. Þá getur maður spurt í fyrsta lagi: Kann ekki að vera að þær ráðstafanir dugi til þess að félagið haldi velli, fái ráðrúm til að endurskipuleggja sig og ná sínum rekstrarmarkmiðum með öðrum hætti en með ríkisaðstoðinni? Það er eitt. Síðan verðum við að vera með opin augun fyrir því að það kann að fara þannig að áætlanir félagsins standist ekki og það er möguleiki að félagið nái ekki að rétta úr kútnum, það fari einfaldlega í þrot. Þá reynir á ríkisábyrgðina. Þá reynir á það líka að við erum með tvo ríkisbanka sem eru með lánalínur til félagsins og við erum með ríkisábyrgð og síðan, eins og ég minntist á áður, erum við með eigendur sem eru lífeyrissjóðirnir okkar sem munu þá tapa sínu fé. Það er valþröng í málinu, eins og sagt er, ég geri mér grein fyrir því og þess vegna boða ég ekki neinar töfralausnir í því nákvæmlega á þessu stigi, og sjálfsagt get ég aldrei komið með töfralausnir, hvað réttast er að gera. Ég held að við verðum að fara mjög vandlega yfir þessi mál öll því að þau eru mjög afdrifarík.

Við í Viðreisn höfum frekar verið þeirrar skoðunar að ríkisafskipti í atvinnulífinu eigi helst ekki að vera nema við mjög sérstakar aðstæður. Því er haldið fram að nú séu mjög sérstakar aðstæður og það kann vel að vera að það sé akkúrat þannig eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi í ræðu sinni.

Ég vil ekki fella neina dóma út eða suður um það hvað eigi að gera. Það sem ég er að reyna að segja er bara: Þetta er mikið vandaverk. Það er mikilvægt að við veltum fyrir okkur öllum möguleikum. Ég held að okkur hrylli öll við þeirri tilhugsunin að það gæti komið til þess að þetta flaggskip okkar í ferðaþjónustunni, Icelandair, yrði gjaldþrota. En það kann að fara svo. Það er möguleiki að það gerist. Þá þurfum við líka að velta því fyrir okkur, hvernig á ég að orða þetta svo að það komi nú rétt fram, að við þurfum að reyna að vera með eins kalt höfuð og við mögulega getum þegar við veltum fyrir okkur hvað sé best og skynsamlegast að gera og láta ekki tilfinningar eða kennisetningar eða kreddur ráða för í því hvað verður gert.

Ég ætla ekkert að hafa þetta mikið lengra. Ég vildi bara viðra þessi almennu sjónarmið. Ég tel að á þessu stigi sé ekki tímabært, a.m.k. ekki fyrir mig, að fara mjög djúpt í málið sjálft og hafa sterkar skoðanir á einstökum þáttum þess. Ég þarf að skoða það betur og fá betri upplýsingar. Ég tel rétt að það komi fram að ekkert er augljóst í mínum huga hvaða skref eru skynsamlegust í þessu máli og hvaða leiðir eigi að velja. Það er sjálfsagt fleiri en ein leið sem hægt er að fara og þær hafa allar sína kosti og galla og hafa líka í för með sér áhættu. Ekkert af þessu er áhættulaust. Við vitum að flugrekstur er sveiflukenndur rekstur, við eigum sögu af flugfélögum sem hafa komið og farið alls staðar í heiminum og líka hér á Íslandi. Þetta þurfum við að vega og meta gaumgæfilega.

Það hefur verið talað um, og ekki ætla ég að draga úr því, að alls konar viðskiptasambönd, leiðakerfi o.s.frv., séu verðmæti í sjálfu sér og að í Icelandair, sem rekur öll þessi kerfi og flýgur á alla þessa staði, séu mikil verðmæti. Ég dreg það ekki í efa. Á móti má spyrja: Mun það taka fleiri ár að fara í svipaðan farveg fyrir önnur félög? Ég hef ekki svarið, en tímarnir breytast og mjög hratt og þetta þurfum við allt að vega og meta. Það er bara það sem ég vil koma á framfæri. Ég veit að við munum öll skoða þetta mál mjög vandlega og tökum þau skref sem verða síðan stigin af yfirvegun og gætum eins og nokkur kostur er að almannahag og íbúum þessa lands við niðurstöðuna. En öll erum við klár á því að við þurfum að geta flogið til og frá landinu. Það verðum við að tryggja.