150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sakna þess enn að menn nefni þau atriði í lögunum um ríkisábyrgð sem hefðu gagnast í þessu tilviki. Hvaða ferli eru skrifuð inn í þau lög sem við látum ekki á reyna hérna? (SMc: Áhættugjald.) Ríkisábyrgðarnefnd var komið á fót samkvæmt lögum um það þegar menn fara í það ferli. Í þessu tilviki færi sú nefnd í algeran tvíverknað. Hún væri í raun að fara að vinna vinnuna sem við höfum falið fjármálasérfræðingum hjá Deloitte að vinna fyrir okkur. Við höfum framkvæmt það mat, leggjum það fyrir þingið og bjóðum upp á samtal við sérfræðinga okkar í þessu efni.

Við erum með ábyrgðargjald hér. Því er komið fyrir í ríkisábyrgðalögunum til að draga úr bjögun sem fylgir ríkisábyrgð þannig að menn greiði í raun fyrir það forskot, þann ávinning sem leiðir af ríkisábyrgðinni og með gjaldinu taki menn til baka hluta af ávinningnum af ríkisábyrgðinni þannig að ábyrgðin skili sér þangað sem menn eru að reyna að teygja sig en sitji ekki eftir hjá lánveitandanum sjálfum. Ég vil meina að með þeirri útfærslu á ábyrgðargjaldi sem við höfum farið í hér þá séum við að gera rétt. Við sækjum inn í sama eðli ábyrgðargjaldsins og fjallað er um í lögunum en að öðru leyti liggur eiginlega bara í eðli aðgerðarinnar að við veljum áhættuminni leið umfram áhættumeiri leið. Áhættumesta leiðin er einfaldlega að senda hlutafé inn í félagið. Það er líka áhættumeiri leið en sú að veita bein lán. (Forseti hringir.) Það er áhættumeiri leið. Svo má alveg spyrja sig fyrir þjóðarhag: Hver er áhættan af því að gera ekki neitt?