150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta er ágætisspurning. Hver er hættan fyrir þjóðarhag af því að gera ekki neitt? Henni þarf auðvitað að svara. Ég held að mörgum spurningum sé ósvarað í þessari umræðu. Ég er ekki endilega sannfærður um að hér sé valin áhættuminnsta aðferðin, að hluta til vegna þess að ég hef ekki fengið að sjá gögnin. Þingflokkur Pírata hefur þegið boð um að hitta þennan sérfræðingahóp. Ég skil að vísu ekki af hverju ekki er hægt að nota þá ferla sem var komið fyrir í lögum og af hverju alltaf þarf að aftengja lögin og finna einhverja aðra sérfræðinga sem henta kannski betur. En gott og vel.

Að lokum finnst mér mikilvægt að taka fram að ég vil Icelandair vel. Ég vil að við endum uppi með gott og öflugt flugfélag sem getur borið fólk til og frá landinu á eins góðan hátt og hægt er. En mér finnst mikilvægt í þessu öllu að við setjum allar tilfinningar til hliðar, horfum eins kalt á ástandið og hægt er og gerum það sem er réttast út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Þess vegna er ég auðvitað að biðja um að gögnin liggi fyrir.