150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um það hvernig ríkið komi að því að veita ríkisábyrgð til Icelandair. Þetta er auðvitað stórt og mikið mál sem skiptir máli í margs konar samhengi fyrir íslenskt samfélag. Eins og hér er búið að rekja og segja margoft í þessari umræðu og rifja upp þá er Icelandair kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Við vitum það öll að það skiptir okkur sem búum á eyju langt frá öðrum löndum miklu máli að samgöngur, og þar með talið flugsamgöngur sem eru þær langskjótustu, séu tryggar og öruggar. Það er auðvitað m.a. vegna þess sem við erum að ræða hér á Alþingi aðkomu ríkisins að þessu máli.

Ég tel að sú leið sem hæstv. ríkisstjórn leggur hér til að sé farin sé góð vegna þess að hún er gerð með hag almennings í landinu að leiðarljósi. Leiðin sem er farin þýðir að það er félagið sjálft og eigendur þess sem þurfa að byrja á því að tryggja að fjármagn sé í rekstrinum, m.a. með því að fara í hlutafjárútboð og auka þannig hlutaféð. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, að það sé grundvöllur fyrir því að ríkisábyrgð komi til greina. Þetta er ekki einungis það sem þarf að uppfylla heldur eru einnig skrifuð skilyrði inn í það að veitt sé ríkisábyrgð. Það er mjög mikilvægt að þau skilyrði eru opinber, þau er hægt að nálgast inni á heimasíðu Stjórnarráðsins. Þar kemur m.a. fram að höfuðstöðvar félagsins og flugrekstrarins verði á Íslandi, að félagið verði með hlutabréf sín skráð í Kauphöll Íslands og uppfylli öll lög og reglur varðandi birtingar á upplýsingum um afkomu og rekstur og að lántaka sé óheimilt að greiða út arð, lækka hlutafé eða kaupa eigin hluti eða gera annað sem felur í sér að fjármunum eða eignum félagsins sé ráðstafað til hluthafa eða tengdra aðila. Svona hlutir skipta auðvitað gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að ríkið gangist í ábyrgð fyrir einkafyrirtæki.

Eins og ég sagði áðan er hér farin leið sem lætur kapítalið, sem lætur fjárfestana, sem lætur einkaaðilana, leggja til fjármagnið sem þarf til þess að viðskiptaáætlanir félagsins gangi upp. Að því uppfylltu er ríkið tilbúið að koma með stuðning í því formi, ef þörf er á, að hægt sé að fá ríkisábyrgð. Í mínum huga er hagur almennings í landinu tryggður með þessu móti, einmitt með því að ríkið komi síðast inn í afskipti af félaginu og verði jafnframt fyrsti aðilinn út. Í athugasemdum með fjáraukalagafrumvarpinu kemur fram að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum, þ.e. að tryggja flug til og frá landinu, en hafi ekki að markmiði að verja hag hluthafa eða lánardrottna. Í mínum huga er þetta einmitt lykilatriði í málinu. Þess vegna finnst mér sú leið sem hér er farin góð. Ég get ekki nefnt aðra leið sem væri betri.

Nú gengur þetta mál til hv. fjárlaganefndar og þar munum við auðvitað fá gesti og fara yfir sjónarmið. En ég tel að hér sé verið að leggja til mikilvægt mál sem sé til þess fallið að styðja almannahag og þess vegna skiptir það máli á þessum erfiðu tímum, á þessum óvæntu kórónuveirutímum, sem íslenskt samfélag og raunar öll önnur ríki standa frammi fyrir.