150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú höfum við í fjárlaganefnd fengið kynningu á stöðunni að einhverju leyti, kynningar á niðurstöðum skýrslu Deloitte sem unnin var fyrir ráðuneytið. Það var ekkert voðalega mikið, það voru aðallega tvö línurit sem sýndu hvernig færi ef hlutirnir yrðu eitthvað aðeins verri, þó nokkuð verri o.s.frv., og hvernig það stæðist samt þær sviðsmyndir sem Icelandair leggur upp með. Gert er ráð fyrir eins lítilli aðkomu ríkisins og hægt er. Frábært, gott og vel. Það þýðir tvennt, og miðað við þau gögn sem koma frá Deloitte virðist það þýða að í rauninni þurfi ekki meira til, það sé góð staða, áætlanirnar séu góðar og það þurfi mikið að gerast til að þær bregðist og að grípa þurfi til ríkisábyrgðar. Ég er í rauninni með einfalda spurningu hvað það varðar: Til hvers þarf ríkið yfirleitt að koma með ríkisábyrgð að þessum málum áður en hlutafjárútboðið er gert? Er það til þess að það sé líklegra að hlutafjárútboðið takist? Ef svo er, af hverju fengum við ekki svör við þeim spurningum þegar við lögðum þær fram á þessum kynningarfundi, það var spurning sem spurt var en ekki var til nein greining á því. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé í rauninni traustsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar á gæðum áætlana Icelandair eða hvort staðan sé í rauninni það slæm að ríkið þori ekki að taka fleiri traustsskref í þá átt.