150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það geti í rauninni enginn annar en þeir sem taka þátt í hlutafjárútboðinu dæmt um hvort að áætlanirnar séu taldar líklegri til að ganga eftir á endanum. Ég tel að það sé þar sem mælikvarðinn verður á hvort að þetta er talið vænlegt bisnessmódel. En ég tel hins vegar að félagið hafi unnið gríðarlega mikla og góða vinnu og gert góða grein fyrir rekstri sínum í undirbúningi fyrir þetta hlutafjárútboð. En það breytir ekki því sem margoft hefur komið fram og ég sagði áðan, að félagið er okkur mikilvægt, þ.e. það er mikilvægt að hér séu tryggar flugsamgöngur við landið. Þess vegna skiptir máli að hafa fyrirtæki hér sem er í góðum rekstri og þess vegna skiptir það auðvitað ríkið máli að þetta fari vel. En á sama tíma hljótum við að hugsa um hvernig við getum gert þá kröfu, vegna þess að við erum að sýsla með fé almennings þegar kemur að ríkisábyrgð, að það séu fjármagnseigendurnir sem beri ábyrgðina á því að koma inn með fjármögnun á félaginu.