150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er stórt og mikið mál og ég hef látið hafa eftir mér að ríkisábyrgð sé aldrei sjálfgefin. Og fyrst við tölum um ábyrgð þá er mikil ábyrgð lögð á herðar þingmanna til að kynna sér málið og ekki síst stjórnarandstöðunnar sem hefur ekki komið neitt að þessu máli. Það upplýstist á fundi og vil ég þakka sérstaklega fyrir þann fund. Hann kom í kjölfar samtals formanna nú fyrr í vikunni. Á þeim fundi bað ég sérstaklega um að okkur yrðu kynntar aðrar sviðsmyndir, að við fengjum að sjá af hvaða sviðsmyndum hefði orðið. Síðan var boðað til fundarins fyrir formenn og fulltrúa í fjárlaganefnd, sem var gott, en við fengum síðan ekki að sjá aðrar þær sviðsmyndir sem ráðuneytið sagði okkur að það hefði unnið með. Þannig að ég geri ráð fyrir því, eins og ráðuneytið boðaði á fundinum, að þær sviðsmyndir og forsendur verði sendar fulltrúum í fjárlaganefnd og eftir atvikum efnahags- og viðskiptanefnd.

En það kom líka fram á fundinum að ráðuneytið og ríkisstjórnin væru búin að vera í miklu og djúpu samtali við Icelandair, eðlilega, það er ekkert tortryggilegt við það. Þess vegna er líka eðlilegt að þingið fái meiri tíma en nokkra daga til að fara yfir forsendur, ástæður og undirbúning þess hvernig ríkisábyrgðin er til komin. Auðvitað vakna ákveðnar spurningar um leið og við verðum að hafa það hugfast, og ég vil taka undir það sem ýmsir hafa komið hér inn á, að Icelandair er afar mikilvægt félag, kerfislega mikilvægt. Ég vil taka undir þá skilgreiningu og ekki síður, og ég mun koma að því síðar, eftir að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að loka í raun landinu. Þá er flugfélagið enn mikilvægara en ella fyrir okkur.

Það skiptir máli að við tryggjum stofnæðarnar til og frá landinu, að það verði traustar og nokkuð órofnar samgöngur núna á þessum tímum, en ekki síður að við getum farið að byggja eitthvað upp til framtíðar, að við veitum fyrirtækjum, ekki bara í ferðaþjónustu heldur einnig nýsköpunarfyrirtækjum, sprotafyrirtækjum eða útflutningsfyrirtækjum, tækifæri til að skipuleggja sig. Blessunarlega erum við þó komin þangað að vera ófeimin í viðskiptum við útlönd.

Fundurinn sjálfur var upplýsandi. Mér fannst það skipta máli sem Icelandair setti fyrir okkur sem og Deloitte og þær greiningar sem þar komu fram. Það var mjög mikilvægt að fá þau sjónarmið sem fyrirtækin drógu fram varðandi stöðuna og hvaða möguleikar væru fram undan og hvernig þau sæju framtíðina fyrir sér í þessum annars mjög breytilega og hvikula flugheimi sem nú er.

Að því sögðu eru hér nokkrar athugasemdir sem ég vil koma með. Ég hlustaði m.a. á ræðu forsætisráðherra. Ég hlustaði á ræður stjórnarliða áðan og þar komu engar almennilegar röksemdir fram að mínu mati, ekki enn, sem segja af hverju verið er að breyta út frá þeim formreglum sem eru í lögum um ríkisábyrgð. Í þeim lögum er fólgið ákveðið aðhald. Það þarf ekki að taka fram hvað það er í lögunum sem við þurfum að ná, miklu frekar þarf að draga fram hvað það er sem leið ríkisstjórnarinnar býður upp á, hvað hún er að reyna að sniðganga. Af því að það er aðhald fólgið í því að beita formreglum og aðhaldið felst ekki síst í því að gæta að almannahagsmunum í gegnum formreglur. Þannig að við þurfum að hafa ríkar og mun skýrari ástæður að mínu mati til þess að breyta út frá formreglum og mun nefndin örugglega fara yfir það af hverju horfið er frá lögum um ríkisábyrgð. Það hefur fram til þessa ekki gefið góða raun að hverfa frá þeim reglum.

Við þurfum þennan tíma til þess að Alþingi virki ekki bara sem stimpilpúði á ríkisstjórnina. Og miðað við hvernig ríkisstjórnin er saman sett er mikilvægt að hafa varann á og spyrja spurninga. Í því felst lýðræði og í því felst málefnalegt aðhald sem tryggir almannahagsmuni, þannig að ég geti líka farið heim í mitt hérað til míns fólks og sagt, ef svo ber undir, af hverju við styðjum ríkisábyrgð eða af hverju við gerum það ekki. Þess vegna þarf meiri gögn. Það er nokkuð sem ríkisstjórnin verður að fara að temja sér, að veita meiri innsýn í af hverju verið er að taka þessar afdrifaríku ákvarðanir.

Ríkisábyrgðin felur í sér að verið er að veita hana til heildarsamstæðunnar. Það kann vel að vera að ákveðin ástæða sé fyrir því. En ég vil þá beina því til nefndarinnar og ríkisstjórnarinnar að gæta verði sérstaklega að því og helst að taka það fram í einhverjum skilmálum, að lánalínan sé gerð til þess að tryggja flugfélagið og flugreksturinn, en ekki að hún sé nýtt til að bæta stöðu annarra félaga, annarra rekstrareininga innan samstæðunnar. Það má ekki gerast. Þá erum við að rugga bátnum þegar kemur að samkeppnissjónarmiðum. Mér fellur það mjög illa ef við upplifum eitthvert pukur varðandi það að á endanum verði lánalínan nýtt til Loftleiða Cabo Verde — það eru margar einingar sem eru innan samstæðunnar; það eru Loftleiðir Cabo Verde, það er Iceland Travel. Það eru margir sem eru í samkeppni við það annars góða fyrirtæki og fleiri ferðaskrifstofueiningar innan fyrirtækjasamstöðunnar, það eru Flugleiðahótel, þótt þau séu að skreppa saman, en engu að síður eru þau til staðar.

Nefndin og nefndarmenn þurfa að huga að samkeppnisvinklinum. Nefndin þarf líka að fara mjög vel yfir athugasemdir Ríkisendurskoðunar sem er, eins og komið hefur fram, undirstofnun þingsins. Ríkisendurskoðun er í rauninni að draga fram þessi álitaefni og áhyggjur okkar hvað varðar óvissuna. Vissulega er það þannig, ef það er einhver vissa í óvissunni, að við getum aldrei sagt nákvæmlega til um stöðuna eins og hún er eða verður. En við verðum að reyna að gera eins vel og við getum, enn og aftur í þágu almannahagsmuna, að geta útskýrt fyrir fólki af hverju við erum að fara þessa eða hina leiðina. Enn sem komið er finnst mér það vanta í þetta, þó að ég verði að segja að margt hefur verið bætt frá því að málið kom fyrst fram og ég efast ekki um að það verði gert áfram í fjárlaganefndinni undir öruggri forystu formannsins.

Þetta eru athugasemdir mínar og ábendingar. Ég vil taka undir það sem líka hefur verið sagt, og það tengist ekki ríkisábyrgðinni, að þetta tengist samt því hvernig samskipti ríkið vill hafa við fyrirtæki og félög þegar kemur að ríkisábyrgðinni. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvaða kröfur flugfreyjur settu fram á sínum tíma, og þá kem ég aftur að kjaradeilum. Ég skil mætavel að forystufólk fyrirtækisins hafi verið undir miklum þrýstingi að bjarga félaginu og að spennan hafi verið mikil. En ég ætla að hafa skoðun á því að mér fannst það ekki siðlegt hvernig framkoma forystufólks í fyrirtækinu sjálfu var gagnvart flugfreyjum. Þetta er sagt í mestu vinsemd. Þetta er nokkuð sem forystufólk í félaginu verður að átta sig á. Alla vega hluti þingmanna, a.m.k. í stjórnarandstöðunni, hefur ákveðnar áhyggjur af nákvæmlega þessu. Ég hef ekki heyrt um þær áhyggjur af hálfu ríkisstjórnarinnar, ekki af hálfu forystuflokksins í ríkisstjórn, en þetta eru áhyggjur mínar og ég heyri það að aðrir flokkar í stjórnarandstöðu eru mér sammála, a.m.k. Samfylkingin og Píratar, hvað þetta varðar, að það er ekki gott ef sprengja á upp það vinnumarkaðsmódel án umræðu um hvernig samið er á markaði þegar átök eru á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga. Þetta er ekki tíminn til að sprengja upp það fyrirkomulag.

Ég hef heyrt fjármálaráðherra og ekki síður þingmenn stjórnarflokkanna, m.a. þingmenn Vinstri grænna, segja: Já, þetta er alveg fínt af því að það eru einkaaðilarnir sem taka mestu áhættuna. Mesta áhættan er hjá einkaaðilum. Fínt. Ég get í sjálfu sér tekið undir það. En hverjir eru það sem eiga meira en helminginn af Icelandair? Það eru lífeyrissjóðirnir. Það er ekki hægt að tala um lífeyrissjóðina, sem eru í rauninni gæsluaðilar félagslegs fjármagns, og segja bara: Þetta eru einkaaðilar sem geta bara tekið áhættuna, ekki með það í huga sem bent hefur verið á, að Ísland er eina landið í Evrópu sem þurfti að grípa til gjaldeyrishafta, og sett voru gjaldeyrishöft á lífeyrissjóði.

Lífeyrissjóðir eru því nauðbeygðir til að taka þátt í svona útboði. Það undirstrikar auðvitað veikleika krónunnar. Ég ætla ekki að fara mikið út í þá sálma, en allt þetta dregur það fram. Ég vil sérstaklega benda á fjárfestakynningu Icelandair þar sem það kom mjög skýrt fram af hálfu Icelandair að langstærsti áhættuþátturinn í fjárfestakynningunni væri hver? Jú, íslenska krónan. Það var stærsti áhættuþátturinn í öllu í fjárfestakynningu Icelandair. Þegar maður leggur það saman og þegar maður horfir svo á stöðu lífeyrissjóða sem ekki hafa um auðugan garð að gresja núna þegar kemur að fjárfestingum, hvernig á að gæta að fjármagni almennings, þá verðum við í þinginu að leyfa okkur að spyrja spurninga, af því að það má segja að áhætta almennings sé tvíþætt í þessu máli. Þess vegna verðum við að kafa djúpt ofan í allt. Áhætta almennings er annars vegar fólgin í ríkisábyrgðinni þar sem skattgreiðendur geta hugsanlega þurft að bera byrðarnar, en líka almennir launþegar, þeir sem greiða í lífeyrissjóði. Þeir bera líka mikla áhættu þarna. Þess vegna þurfum við að vanda okkur vel í þessu. Ég hef trú á því að það verði gert svo lengi sem menn eru reiðubúnir til þess að miðla upplýsingum og taka samtalið.

Ég gat um það áðan að mér þætti það líklegt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að loka landinu hafi leitt til þess að Icelandair er í rauninni enn frekar og meira kerfislega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga en áður. Jú, ég er sammála fjármálaráðherra um að við eigum gríðarleg sóknarfæri til lengri og skemmri tíma í landinu okkar. Ferðaþjónustan fer af stað að nýju, bara vegna þess hvernig umhverfið er, heilnæma náttúran, menning okkar. Og nú, þegar lokað er til Bandaríkjanna og við höfum í rauninni bara fluglegginn Ísland–Evrópa, Evrópa–Ísland, þá erum við ekki fremst í forgangsröðinni að mínu mati, það getur verið að það sé rangt, hjá öðrum flugfélögum þegar áhættuþátturinn er sá að ríkisstjórnin geti allt í einu kúvent í afstöðu sinni og lokað landinu og sagt: Ja, við lokuðum, en við opnum kannski eftir tvær vikur eða kannski eftir þrjár vikur, og svo eru aðrir sem segja að landið verði svona í einhverja mánuði. Þarna er óvissa sem ríkisstjórnin hefur sjálf tekið þátt í að móta og búa til.

Þess vegna eru meiri líkur en minni á að það sé skynsamlegt fyrir okkur að styðja við þetta kerfislega mikilvæga fyrirtæki, Icelandair, út frá þeim rökum, en ekki síst út frá því hvaða þekking er innan fyrirtækisins og hvaða reynsla og hvaða mannauður býr innan fyrirtækisins. Að mínu mati er það stór þáttur í því að við skoðum málið enn betur og enn dýpra eins og staðan er núna. Þar fyrir utan höfum við í Viðreisn lagt áherslu á að veita fyrirtækjum tækifæri til þess að vera í híði, til að vera tilbúin þegar tækifærin koma, þegar þetta byrjar aftur. Ég held að það skipti máli þegar við sjáum fram á að bóluefni verði hugsanlega tilbúið upp úr áramótum, þá verðum við hér með stórt, öflugt, reynslumikið flugfélag. Við þurfum að vera tilbúin til þess að fara af stað í aðra eða þriðju eða fjórðu bylgju ferðaþjónustunnar. En við í stjórnarandstöðunni þurfum að fá að spyrja spurninga og við vonumst auðvitað til þess að okkur verði svarað.