150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu og fyrir að spyrja margra spurninga sem nauðsynlegt er að spyrja og fá svör við. Ég get ekki á mér setið að fá að spyrja hv. þingmann ákveðinna spurninga af því að henni varð tíðrætt um þá kúvendingu, eins og hún kallar það, sem varð þegar ríkisstjórnin ákvað að loka landinu. Þá er væntanlega verið að vísa til leiðar fimm af níu í minnisblaði sóttvarnalæknis til ríkisstjórnarinnar um hvernig fara ætti með landamærin. Mig langar einfaldlega að spyrja hv. þingmann: Er hún á móti þeirri leið? Hvaða leið vill hv. þingmaður fara varðandi landamærin? Er það einhver af hinum leiðunum sem sóttvarnalæknir lagði til? Eða hvernig vill hv. þingmaður fara með landamærin?