150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Bittinú, á dauða mínum átti ég von en ekki þessari frasagusu. Ég var í einlægni minni að velta fyrir mér, þar sem hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um lokun landamæra, hver skoðun hv. þingmanns væri á þeirri lokun. Umrætt minnisblað sóttvarnalæknis hefur verið opinbert í hálfan mánuð. Við höfum öll getað skoðað það og pælt í því og talað við fólk. Ég er á því að þessi leið hafi verið skynsamlegust af þeim níu sem sóttvarnalæknir lagði til. Ég hef ekki heyrt annað á honum sjálfum en að hann hafi verið ánægður með þá leið. Spurningin er afskaplega einföld og snýst ekkert um einhverjar sviðsmyndagreiningar eða meint samráðsleysi eða hvað. Hver telur hv. þingmaður að sé rétta leiðin á landamærunum? Telur hv. þingmaður að sú leið sem farin er núna sé röng?