150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni kom hv. þingmaður aðeins inn á frumvarp til laga, sem við ræðum hér líka, um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir. Um það er að ræða að sett er inn nýtt bráðabirgðaákvæði um að lögin gildi ekki um ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart Icelandair Group. Fjallað er um það í greinargerðinni að lögin um ríkisábyrgðir eins og þau eru passi ekkert sérstaklega vel við ríkisábyrgð af þessu tagi því að lögin séu fyrst og fremst hugsuð þegar verið er að veita ríkisábyrgð vegna ákveðinna nýframkvæmda eða verkefna. Einnig er því bætt við að þess vegna sé þetta bráðabirgðaákvæði lagt til enda hafi skilyrði og skilmálar ábyrgðarinnar af hálfu ríkisins verið sérsniðnir að félaginu og þeim fordæmalausu aðstæðum sem uppi eru í efnahagslífinu vegna heimsfaraldursins.

Ég tek ábendingu hv. þingmanns um að taka þurfi lögin eins og þau eru alvarlega. Ég vil þess vegna spyrja, vegna þess að ég tel að það skipti máli í vinnu hv. fjárlaganefndar: Hvaða atriði eru það í lögum um ríkisábyrgðir sem hv. þingmaður telur að við eigum að hafa augun á sem ekki er fjallað sérstaklega um í skilyrðunum?