150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vandmeðfarið fyrir stjórnarliða að koma hingað og spyrja krítískra spurninga og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu sem var mjög umhugsunarverð. Þetta var ákveðin ádrepa líka. Ég tek heils hugar undir að það þurfi að rýna þetta þannig. Við erum ekki endilega sammála um leiðir en við erum sammála um að við verðum að fá fleiri svör. Ég spyr hvort þingmaðurinn sé sammála mér í því að eins og málið er nú útbúið dugi það ekki til að tryggja almannahag með nægum hætti, alla vega ekki þannig að við getum farið út til allra okkar umbjóðenda — við erum nú í sama kjördæmi, Suðvesturkjördæmi — og útskýrt fyrir okkar fólki af hverju nauðsynlegt er að fara þessa leið. Eins og ég talaði um í ræðu minni finnst mér ekki ólíklegt að þunginn verði meira á það að við styðjum við fyrirtækið en þá er eðlilegt að við gerum þessar skýru kröfur og við höfum til þess mismunandi sjónarmið. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það þurfi í fyrsta lagi að skýra þetta betur út og hvort hún hafi sagt þetta innan stjórnarliðsins.

Ég fagna sérstaklega þeirri áherslu sem hv. þingmaður talar um varðandi umhverfismálin. Það er með ólíkindum að á hverjum blaðamannafundi ríkisstofnunar á fætur öðrum er umhverfisráðherra ekki sjáanlegur. Það átti að vera eitt af flaggskipum Vinstri grænna í ríkisstjórn að sinna umhverfismálum en það er eins og vinkill þeirra í öllum þessum aðgerðum hafi pínulítið gleymst. Ég vil einfaldlega brýna hv. þingmann til þess að menn verði meira vakandi og dragi umhverfisþáttinn og kröfurnar sem við gerum í þá veru betur inn í ákvörðunartöku um það hvernig við ætlum að byggja atvinnulífið upp.