150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í framsöguræðu kvartaði fjármálaráðherra yfir því að það væri alveg ómögulegt að framfylgja lögum um ríkisábyrgðir, þau ættu bara ekkert við þetta mál. Örstuttu síðar sagði hann að þær greiningar sem farið hefði verið í, t.d. með Deloitte, hefðu verið mikilvægar fyrir málið. Það er alveg rétt því að þær greiningar eru hluti af því sem þarf að fara í til þess að uppfylla lög um ríkisábyrgðir. Ef við rétt rennum yfir helstu atriðin í þeim lögum þá á Ríkisábyrgðasjóður að meta greiðsluhæfi skuldara, meta afskriftaþörf vegna áhættu af ábyrgðum, meta tryggingar sem verða lagðar fram vegna ábyrgðarinnar og meta áhrif ríkisábyrgða á samkeppni á viðkomandi sviði og svo eru hér ýmis ákvæði sem segja til um það hvenær ekki er heimilt að leggja til ríkisábyrgð og þess háttar. Það er ástæða fyrir því að þessi atriði eru í lögum um ríkisábyrgðir af því að framkvæmdarvaldið þarf að útskýra fyrir þinginu, út frá þeim atriðum, hvers vegna almannafé er í öruggum höndum í ríkisábyrgð sem veitt er.

Það er sagt að lög um ríkisábyrgðir eigi ekki við í svona aðstæðum, um svona fyrirtæki og ýmislegt svoleiðis, að lögin séu úrelt og það hafi lengi staðið til að uppfæra þau. Það afsakar ekki að skófla þeim bara til hliðar og taka á sama tíma nokkur ákvæði úr lögunum um ríkisábyrgðir, t.d. ábyrgðargjaldið, og setja þau inn í skilmálana við ríkisábyrgðina sjálfa. Alla jafna fær Alþingi að vega og meta hvaða skilmálar eigi að fylgja ríkisábyrgðum og hvaða rökstuðning framkvæmdarvaldið á að veita þinginu vegna þeirra skilmála og vegna þeirra greinargerða sem eru gerðar af Ríkisábyrgðasjóði. Við fáum umsagnir um hvort þeir skilmálar séu góðir eða slæmir þegar um er að ræða lagafrumvarp. En þegar um er að ræða skilmála í ríkisábyrgð í samningi á milli ríkisins og þess einkafyrirtækis sem hér um ræðir fara þeir skilmálar, sem alla jafna eru lagagreinar, ekki í gegnum þinglega meðferð. Framkvæmdarvaldið er að taka að sér ákveðna lagasetningu þarna sem mér finnst vera óviðeigandi.

Það er munur á löggjafarvaldi og fjárveitingavaldi. Við erum hér sem fjárveitingavald að ákveða hvort 16 milljarða ábyrgð teljist góð nýting á almannafé eða ekki, eða því trausti sem ríkissjóður hefur þar á bak við varðandi lánakjör og þess háttar. Síðan er það framkvæmdarvaldið hins vegar. Þetta eru tveir aðskildir hlutir en það er mikið farið með þetta eins og um sama valdið sé að ræða. Ríkisstjórnin sem hefur tekið sér framkvæmdarvaldið með meiri hluta þingsins fer með þingið eins og um aukaafurð af framkvæmdarvaldinu sé að ræða, með því að láta okkur ekki fá upplýsingar þegar beðið er um þær — við sjáum hvort þær koma í framhaldinu, fyrir 2. umr., ég hlakka til að sjá hvort það gerist en það hefur ekki gerst hingað til — um hvaða aðrir möguleikar voru í stöðunni og af hverju þeir möguleikar eru verri en sá möguleiki sem hérna er lagður á borðið.

Þetta er nákvæmlega sama umræða og ég hef haft uppi varðandi fjármálaáætlun, fjárlög, samgönguáætlun, þar sem það vantar forgangsröðunarlistann. Hér eru allir möguleikarnir sem voru lagðir fyrir framan okkur. Við reyndum að vega og meta hvern möguleika fyrir sig út frá áhættu og ávinningi og meira að segja út frá pólitískri hugmyndafræði; það skiptir ekki máli svo lengi sem rökin eru til staðar fyrir því að þessi valmöguleiki hafi verið sá besti umfram alla hina.

Við höfum heyrt í umsögnum fjármálaráðuneytis, í heimsóknum til fjárlaganefndar, að við séum að tala um fyrirtæki á opnum markaði og að það þurfi að fara voðalega varlega. En þetta er fyrirtæki á opnum markaði sem er að koma til hins opinbera og biðja um almannafé og við þurfum að fara varlega með almannafé. Það eru ákveðnar gagnsæiskröfur sem við þurfum að standast, upplýsingar sem við þurfum að hafa aðgang að, til að taka ákvörðun um það hvernig við förum vel með almannafé. Það er ástæða fyrir því að lög um ríkisábyrgðir eru sett. Það er af því að fyrirtæki á opnum markaði eru í samkeppni og þegar hið opinbera ákveður að hjálpa einu fyrirtæki umfram annað fer það með samkeppnisstöðuna. Þá er ríkið að velja og hafna einum umfram annan nema farið sé eftir lögum um ríkisábyrgðir þar sem það fyrirtæki sem fær ríkisábyrgð þarf að borga fyrir hana miðað við þann mismun á markaðskjörum annars vegar og þeim kjörum sem ríkisábyrgðin veitir hins vegar. Við fáum ekki þær greiningar af því að það er of erfitt að meta það en samt ætlum við að láta Deloitte meta það fyrir okkur hversu hentugt þetta er.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, þegar allt kemur til alls, er hvort þessi 16 milljarða ríkisábyrgð telst góð meðhöndlun á almannafé. Hvað varðar þá spurningu eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Eitt svarið getur hæglega verið já. Ef allt fer eftir áætlun, ef áætlanir Icelandair standast, ef hlutafjárútboðið klárast, ef aldrei er dregið á lánið þá er nokkurn veginn eins og það hafi aldrei verið veitt. Það var hins vegar veitt. Það er ákveðin ívilnun í því að vera með ríkisábyrgð á bak við sig til þrautavara. Icelandair, sá sem fær ríkisábyrgðina, nýtur þess í hlutafjárútboðinu, það er traustara hlutafjárútboð en ella. Með því er samkeppnisstaðan skekkt. Við fáum ekki greiningu á því sem ætti að gera samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir. Hinir möguleikarnir eru að eitthvað verði dregið á lánið alveg upp í að það verði dregið á lánið að fullu og að það endurheimtist allt. Það gerir það með ákveðnu ábyrgðargjaldi sem er í lögum um ríkisábyrgðir, að það eigi að vera ákveðið ábyrgðargjald, þannig að það er búið að sleppa því að hafa það samkvæmt lögum en hafa það frekar samkvæmt skilmálum. Ég skil ekki af hverju. Kannski er það af því að það þarf að rökstyðja það betur ef farið er eftir lögunum en það þarf ekkert að rökstyðja það neitt sérstaklega vel ef það er samkvæmt skilmálunum. Þetta er leið til að losna við að þurfa að rökstyðja málið á opinn og gagnsæjan hátt eins og Alþingi þarf að gera til að taka upplýstar ákvarðanir um mál af þessu tagi. Ef eitthvað er, ef maður á að vera svartsýnn í þessu, þá er þetta leið til að loka á það gagnsæi sem annars þarf að vera til staðar þegar Alþingi tekur ákvarðanir um fjárveitingar og ríkisábyrgðir.

Möguleikinn í kjölfarið er að ekki innheimtist allt. Hver er áhættan af því? Við höfum ekki hugmynd um það. Það á að meta það samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir en við fáum það mat ekki. Það kom línurit frá Deloitte þar sem sagði að þó að það yrðu frávik frá áætlunum um 10–70% eða eitthvað svoleiðis myndi það samt allt standast upp í einhver 50% frávik. Þetta er bara sagt eftir minni, ekki taka mig alveg á orðinu hvað það varðar. Þær sviðsmyndagreiningar litu mjög vel út. Maður getur hugsað sem svo: Allt í lagi, miðað við þessar áætlanir, miðað við þessar forsendur, þarf mjög mikið að gerast til þess að þetta takist ekki. Allt í lagi, þetta er sem sagt örugg fjárfesting og ríkið kemur þannig inn að mjög litlu leyti, að eins litlu leyti og hægt er að hafa það. En það kemur samt að málum, þrátt fyrir að þetta sé svona öruggt. Eða, af því að maður fær ekki að sjá upplýsingarnar og hefur ekki hugmynd um hvaða alvörugögn liggja þarna á bak við, því að gögnin sem Deloitte vinnur með eru upplýsingar frá félaginu sjálfu, er þetta fallvaltara en sést á tölunum? Er eignasafnið þarna undir, sem gögn eru byggð á, skeikulla en kemur fram í greiningunni? Ef svo er er ríkið kannski að fara eins varlega að þessum samningum og hægt er til þess að það verði ekki fyrir skaða, sem er líka gott. En það kemur í veg fyrir markmiðið með þessu sem er að tryggja góðar og öruggar flugsamgöngur. Er það ekki markmiðið sem við viljum ná, er það ekki á þeim nótunum?

Þá spyr maður: Ef það er markmiðið, er Icelandair eina félagið sem getur uppfyllt það markmið? Aftur er það ekki valmöguleiki sem við fáum að sjá greiningu á, hvort hann standist eða ekki. Alla vega ekki enn sem komið er þó að spurt hafi verið. Það er meira af nefndarvinnu eftir, en það er hins vegar lítið af nefndarvinnu eftir, það á að klára þetta á mjög stuttum tíma. Þingið á að klára þetta á föstudaginn og við erum að afgreiða 16 milljarða ríkisábyrgð á einni viku með mjög takmarkaðar upplýsingar, eins og er, til að byggja ákvörðunina á. Ég efast ekki um að ríkisstjórnin hafi aðgang að betri upplýsingum, trúnaðarupplýsingum. Það hefur aldrei verið sagt á fundum hingað til að þær upplýsingar sem fjárlaganefnd hefur fengið séu bundnar trúnaði, það var reyndar ein glærusýning frá öðrum umsagnaraðila en Icelandair þar sem beðið var um að trúnaður ríkti. Ég veit svo sem ekki af hverju en allt í lagi, ekkert slæmt um það að segja. Að öllu öðru leyti höfum við í fjárlaganefnd ekki fengið neinar trúnaðarupplýsingar sem varða Icelandair og þær greiningar sem hafa verið unnar upp úr þeim gögnum sem hafa skilað sér til fjárlaganefndar. Við erum því væntanlega ekki með sömu upplýsingar og fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin um það af hverju þetta er besti kosturinn umfram aðra. Ég efast um að við fáum þær upplýsingar eða nægilega góðar upplýsingar ásamt öðrum valkostum til að hægt sé að segja að þetta sé vissulega besti kosturinn í stöðunni. Mér finnst það ólíklegt. Ég má alveg vona að það raungerist ekki en að fenginni reynslu ætla ég að giska á að það verði niðurstaðan að þetta mál verði tekið í gegn, að við fáum umsagnaraðila eftir umsagnaraðila og þá verði búið að tékka í öll boxin og málið verði afgreitt áfram og út af því að ríkisstjórnin er einfaldlega búin að ákveða það með meirihlutavaldi sínu að hún geti bara klárað þetta mál án þess að sýna Alþingi ástæður og rök þess að um sé að ræða góða meðferð á almannafé.