150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Eitt af því skemmtilega við hið annars leiðinlega ástand sem leiðir af Covid-faraldrinum eru öll nýju orðin og hugtökin sem við erum að læra. Hér er um að ræða kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Ég á dálítið erfitt með það vegna þess að mér finnst eins og fyrirtæki geti aldrei verið kerfislega mikilvægt. Jú, Icelandair er mikilvægt vegna þess að þar vinnur margt fólk. Það er mikilvægt fyrir það fólk og fjölskyldur þess. Icelandair er mikilvægt vegna þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir. Það er kerfislega mikilvægt að samgöngur Íslands við umheiminn séu tryggðar, hvort sem það er í höndum Icelandair, eða hvað það hét hérna einu sinni, FL Group, Stoðir og Flugleiðir, eða annarra. Fyrirtækið hefur ekki verið til frá upphafi flugsögunnar í óbreyttri mynd en þjónustan hefur alltaf verið veitt og það er það sem er kerfislega mikilvægt. Þess vegna þurfum við alltaf að staldra við það, þegar við erum að skoða þetta mál, hvort við göngum of langt í þágu fyrirtækisins sem slíks frekar en markmiðsins, sem er þjónustan sem fyrirtækið veitir. Sú nálgun sem ríkisstjórnin leggur til felur í sér að ríkið verði lánveitandi til þrautavara ef allt annað þrýtur hjá Icelandair í endurfjármögnun. Það er ekki augljóst að það sé besta leiðin eins og hefur verið bent á. Það eru jafngóð ef ekki betri rök fyrir því að ríkið verði eigandi til þrautavara. Takist fyrirtækinu ekki að fjármagna sig á markaði á eigin forsendum og sé við það að falla komi ríkið og grípi það í fallinu. Það er jafnvel nær því að vera hlutverk ríkisins að grípa fyrirtækið og tryggja þar með þjónustuna.

Fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnartíma sagði hæstv. forsætisráðherra mikilvægt að hér á landi væri starfrækt flugfélag sem væri með höfuðstöðvar á Íslandi og starfaði á íslenskum vinnumarkaði. Ég staldraði við hvort tveggja. Ég staldraði við að mikilvægt væri að fyrirtækið væri með höfuðstöðvar á Íslandi vegna þess að ég sé enga tryggingu fyrir því að svo verði eftir hálft ár, heilt ár eða tvö ár ef allt gengur upp hjá Icelandair vegna þess að Icelandair hf. er einfaldlega hlutafélag sem hluthafar geta stýrt í þá átt sem þeir vilja. Það er félag á markaði. Ræður það því ekki sjálft hvar það hefur höfuðstöðvar sínar? Ég er sammála því að það sé jákvætt að á Íslandi starfi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi en við getum ekki notað það sem rök um að það sé einhvers staðar sett sem skilyrði að svo sé. Það gæti verið sniðugt.

Mér finnst líka mikilvægt að það flugfélag sem veitir þá grunnþjónustu sem tenging landsins við umheiminn er starfi á íslenskum vinnumarkaði. Ég er alveg hjartanlega sammála hæstv. forsætisráðherra um það. En hvað gerðist í vor? Er hægt að segja að aðfarir stjórnenda Icelandair í samskiptum sínum við stéttir sem vinna hjá félaginu samræmist á nokkurn hátt því sem á að gilda á íslenskum vinnumarkaði? Um þetta eru náttúrlega engin skilyrði heldur í þeim þingmálum sem við höfum hér fyrir framan okkur, enda væri það kannski tómt mál að tala um. Það er búið að beygja stéttirnar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að það verði gert á þeim tveimur árum sem lánalínan á að gilda. Það var gert í vor þannig að það þarf kannski ekki að setja skilyrði um að fyrirtækið starfi á íslenskum vinnumarkaði. En það er ekki tekið fram þannig að þessi ósk ríkisstjórnarinnar um að hafa flugfélag starfandi á Íslandi með höfuðstöðvar hér á landi sem starfi samkvæmt íslenskum vinnumarkaði er ekki færð í neitt form í þessum þingmálum. Það endurspeglar almennari tilhneigingu hjá ríkisstjórninni, í þeim neyðaraðgerðum sem hafa verið settar í gang á síðustu mánuðum, að það er gríðarleg fælni við að skilyrða stuðning. Ef forsætisráðherra finnst skipta máli að hér starfi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem starfi á íslenskum vinnumarkaði þá er tækifærið hér þegar á að gefa því félagi möguleika á 16 milljarða lánalínu með ríkisábyrgð, möguleikinn er hér á að setja það skilyrði á blað frekar en að segja það skoðun sína í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það hefur ekki sama gildi og skjal sem hefur fengið þinglega meðferð og staðfestingu hér á þingi. Það er ekki skilyrði. Það er ósk.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta mjög mikið en mig langar að lýsa áhyggjum mínum af því að samhliða því að ætla að ábyrgjast lánalínu til félagsins þá eigi að víkja til hliðar lagarammanum um það að ábyrgjast lánalínur til félaga í þessu tilviki með mjög veikum rökum. Lög um ríkisábyrgðir setja ákveðinn ramma þar sem m.a. er lagt mat á áhættu. Lagt er mat á það hvort viðeigandi tryggingar séu fyrir hendi til að verja ríkið þeirri áhættu. Lög um ríkisábyrgðir sjá til þess að Ríkisábyrgðasjóður sem starfar innan Lánasýslu ríkisins geri það mat á faglegum forsendum og það fylgi síðan með tillögu til þingsins um að veita ríkisábyrgð. Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að víkja lögum um ríkisábyrgðir til hliðar er að komast hjá því faglega ferli, komast hjá því að matið líti dagsins ljós. Ég veit samt ekki af hverju við eigum að vera eitthvað feimin við það af því að fjármálaráðherra sagði nokkuð skýrt í flutningsræðu og andsvörum við hana að ábyrgðirnar væru sennilega einskis virði. Hann sagði að hann vissi það ekki. Hann sagði að ef félagið færi á hausinn gæti einhver kannski viljað endurreisa flugfélagið Icelandair og þá allt í einu gæti lénið Icelandair.com verið mjög verðmætt. Kannski vill enginn nota það lén, kannski vill enginn bókunarvélarnar. Kannski verður offramboð af lendingartímum á flugvöllum. Þar með eru ábyrgðirnar verðlausar, eins og er raunar bent á í umsögn Ríkisendurskoðunar.

Einmitt vegna þess að þetta liggur allt fyrir, við vitum að verið er að veita ríkisábyrgð með veði í tómu lofti, af hverju getum við ekki farið í gegnum Ríkisábyrgðasjóð sem segði það bara svart á hvítu að það myndi fylgja gögnunum? Þá væri fólk að samþykkja málið með opin augu fyrir því. Ég held að ástæðan geti mögulega verið sú að það að hafa ríkisábyrgð er ákveðin traustsyfirlýsing frá ríkinu til félagsins vegna þess að fjárfestir sem kemur að hlutafjárútboði mætir stjórnendum með bevís upp á vasann um að ríkið ábyrgist lánalínu til félagsins. Sá fjárfestir hugsar með sér: Já, það er búið að fara yfir bakgrunn félagsins. Það er búið að fara yfir einhverjar tryggingar og meta áhættu. Ríkið segir að þetta félag sé nógu gott til að leggja pening í. Þá get ég komið með féð mitt. Fjárfestar líta á það sem Alþingi samþykkir í þessu máli sem traustsyfirlýsingu en við erum búin að heyra það frá fjármálaráðherra og lesa það frá Ríkisendurskoðun að engin innstæða er fyrir traustinu önnur en óskir um að allt gangi vel. Búið er að veðsetja allt sem eitthvert virði er í. Þess vegna ættum við sem ábyrgur löggjafi að horfast í augu við það og önnur leiðin væri að segja: Ja, það er allt í lagi, við þurfum enga ábyrgð, þið fáið þennan pening, þið eruð kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Við viljum bara að þetta gangi upp hjá ykkur. Við skulum ekki láta eins og einhver vefsíða og bókunarvél sé einhvers virði, bara gjörið svo vel, 15 milljarðar. Hin leiðin væri blönduð, að vera lánveitandi til þrautavara og eigandi til þrautavara, og segja: Hér fáið þið lánalínu upp á 15 milljarða. Ef allt fer á versta veg og þið þurfið að tappa af lánalínunni þá vitum við að þið eigið engin veð fyrir því. Við fáum bara hlutabréf í staðinn. Ef illa fer og ríkið þarf að stíga inn með sína 15 milljarða til að styðja fyrirtækið þá fær ríkið á móti að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækisins í framhaldinu, beinan þátt sem hluthafi við borðið. Það held ég að væri miklu heilbrigðari leið, fyrst við erum komin á þann stað að vilja ekki fara þá lögformlegu leið sem sett er í lögum um ríkisábyrgðir. Auðvitað væri það best vegna þess að á þessum umbrotatímum verðum við að búa að löggjöf sem er krísuheld. Með því að víkja við fyrstu ágjöf til hliðar lögum sem eiga að verja ríkissjóð áhættu af því að veita ríkisábyrgð þá erum við að segja að lagasafnið okkar þoli ekki álagið. Það er ekki gott.