150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um mögulega ríkisábyrgð á lánalínum til handa Icelandair í formi tveggja frumvarpa sem eru í forminu frekar einfaldari en álitamálin sem þeim fylgja eins og þessi 1. umr. um málið hefur svo sannarlega dregið fram.

Aðeins um frumvörpin. Í fyrra frumvarpinu er um að ræða nýjan lið við 6. gr. fjárlaga, ákvæði sem felur í sér heimild til að veita Icelandair, sem kerfislega mikilvægu fyrirtæki, sjálfskuldarábyrgð á lánum, allt að 15 milljarða, sem er 90% af heild en 10% væru í höndum ríkisbankanna tveggja. Hins vegar er um að ræða frumvarp um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir. Sú breyting hefur eðli málsins samkvæmt verið þó nokkuð rædd hér þar sem um er að ræða nýtt bráðabirgðaákvæði sem undanskilur þessa aðgerð ríkisábyrgðalögum eins og þau koma fyrir. En við þekkjum það frá afgreiðslu til mynda viðbótarlána fyrr í vor og svonefndra brúarlána og svo lána til smærri eða minni rekstraraðila, stuðningslánanna. Fjárhagslegt umfang yrði afmarkað í heimildarákvæði í frumvarpi til fjáraukalaga og kveðið á um endurgjaldið fyrir mögulega veitta ábyrgð þar og sérstaklega samið um það og önnur þau skilyrði sem nauðsynlegt er að setja slíkri ábyrgð.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er afar mikilvægt að fjárlaganefnd og þingið fari vel yfir þessi mál. Við höfum þegar kallað eftir og fengið minnisblað um ríkisábyrgðir og hvers vegna hyggilegt sé að vera með bráðabirgðaákvæði sem víkur þessu undan ríkisábyrgðalögum vegna þess að ég tek heils hugar undir það almennt sem hér hefur komið fram m.a. í máli hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson sem var hér á undan mér í ræðu kom inn á þetta og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir orðaði það svo, sem mér finnst grípa þetta ágætlega, að formreglurnar veiti þann aga og aðhald sem er nauðsynlegt framkvæmdarvaldinu við slíka ákvarðanatöku og þegar þingið tekur ákvörðun um þau mál sem eru komin inn til þingsins. Ég tek heils hugar undir það. Ég get ekki svarað þessari spurningu um ákvæðið á svipstundu en ég vil bara koma því að og grípa niður í minnisblaðið til upplýsinga um fyrirhugaða ríkisábyrgð. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. er kveðið á um að lagaheimild skuli vera til staðar til þess að ríkissjóður geti tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingu.“

Þar segir enn fremur:

„Fyrirhuguð ríkisábyrgð vegna Icelandair er tímabundin og því ekki heppilegt að sérlög verði sett um hana, sem síðan þarf að afnema með sérstöku lagaboði. Eðlilegra er að slíkra heimilda sé aflað í heimildarákvæði fjárlaga með sambærilegum hætti og gildir um sölu á eignum ríkisins.“

Ég ætla ekki að lesa meira upp úr þessu en síðan er hver og ein lagagrein tekin fyrir og það verður okkar verkefni í hv. fjárlaganefnd að fara yfir þetta eins og var farið fram á í umræðunni. Lög um ríkisábyrgðir hafa ekki verið endurskoðuð eins og hefur staðið til í þó nokkurn tíma. Það segir m.a. hér neðanmáls í þessu minnisblaði: „Endurskoðunin hefur þó ekki verið talin brýn, í ljósi þess hve sjaldan reynir á þau síðustu ár.“ Um það er umfjöllun í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisábyrgðir og endurlán.

Við þurfum að kafa svolítið ofan í þennan þátt en á sama tíma, þótt við séum að fjalla um þetta mál núna, er ástæðulaust að tortryggja allt í þessu ferli, það er búin að vera ágætisvinna á bak við þetta. Það kann að vera að það sé hyggilegra að gulltryggja þetta í fjáraukalagafrumvarpi, eins og gert er með notkunarálagið og ábyrgðargjaldið. Við verðum auðvitað alltaf að skoða þetta og málið í heild sinni í samhengi við þá áhættu sem þessu fylgir.

En nóg um ríkisábyrgðina í bili. Vinna nefndarinnar fram undan felst í því að svara þeim spurningum sem hafa komið fram við 1. umr. og álitamálum sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar.

Hér hefur verið rætt um kerfislegt mikilvægi eða þjóðhagslegt mikilvægi, skilgreininguna á því og hversu langt hún gengur. Ég held að við getum aldrei rætt um eitthvað sem er kerfislega mikilvægt eða þjóðhagslega mikilvægt án þess að setja það í einhvers konar samhengi. Nú höfum við fengið umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar, SAF, og Samtökum atvinnulífsins, þau koma inn á þetta kerfislega mikilvægi og styðja málið í sinni umsögn. Við munum fá þessa aðila fyrir nefndina. Mér finnst það gegnumgangandi í umræðunni að óumdeilt sé að fyrirtækið Icelandair gegni afar mikilvægu hlutverki þegar kemur að samgöngum og vöruflutningum og þjónustu og umfangi ferðaþjónustunnar. Þegar við tölum um samhengi þá getum við nefnt að ferðaþjónustan er með hátt í 40% af heildarútflutningstekjum. Þá erum við farin að setja hlutina í einhvers konar samhengi þegar við erum að ræða um almannahagsmuni og kerfislegt mikilvægi. Það er auðvitað okkar verkefni að skilgreina það vegna þess að við höfum almannahagsmuni að leiðarljósi. Það er ekki og verður aldrei sjálfgefið eða sjálfsagt mál að afgreiða svona mál, ríkisábyrgðir til einkafyrirtækja og fyrirtækja á markaði. En það eru mjög sérstakar kringumstæður sem við erum að fást við í flestum málum hér. Slíku inngripi fylgir eðlilega alltaf samkeppnisröskun. Hér hefur verið nefnt að Icelandair er ekki bara í flugrekstri, að flytja farþega fram og til baka, heldur rekur ferðaskrifstofu, hótel og ýmiss konar aðra flugtengda þjónustu. Við verðum að gæta að jafnræði gagnvart öðrum aðilum á þessum mörkuðum og enn og aftur tengja það við þann almannahag sem býr að baki og er okkar leiðarljós. Það eru líka samningar við alla hagaðila, starfsmenn, íslenskt kjaraumhverfi, ríkisaðstoðarreglur.

Hér hefur verið velt upp fjölmörgum öðrum leiðum og þar sem við erum að horfa til þessa umhverfis þá hafa flestar þjóðir þurft að grípa til þessara úrræða, sumar hverjar úrræða í líkingu við það sem lagt er til hér og svo annarra leiða sem hafa komið fram hér í umræðunni; að lána beint eða taka hlut eða gera ekki neitt o.s.frv. Það eru fjölmargar þjóðir sem hafa þurft að styðja við flugfélög eins og fram hefur komið hér í umræðunni. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir tók mjög góð dæmi frá Frakklandi og Hollandi og við þekkjum dæmi í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, Noregi, Þýskalandi, Frakklandi, Austurríki og víðar. Það hefur verið dregið fram hér og er mikilvægt í þessari 1. umr.

Það er ærið verkefni fram undan hjá nefndinni að fara í gegnum þessar spurningar allar og draga fram svörin. En það er alveg ljóst að á undan hefur gengið mikið ferli, langt og strangt ferli. Við skulum ekki gleyma því að félagið sjálft hefur staðið í feikilegri baráttu og þurft að fara í gegnum samninga við kröfuhafa, samninga við birgja og þurft að berjast fyrir tilvist sinni. Það er mikilvægt að félagið sjálft taki ábyrgð á eigin tilvist með þessum hætti og ég held að nálgun stýrihóps stjórnvalda hafi verið skynsamleg að þessu leyti. Hún er vissulega varfærin þegar kemur að því að meta þessa leið með tilliti til þess að lágmarka áhættu skattgreiðenda og tryggja samgöngur og almannahag að því leyti til. Ég held að við verðum að horfa til þess.

Forsendan hér, þegar við afgreiðum þetta mál, er sú að hlutafjárútboðið gangi eftir. Það er auðvitað stórt próf sem félagið fer í gegnum þar. Allar þær áætlanir sem félagið er að gera og sýna fram á til að leita stuðnings, hvort heldur er fjárfesta, núverandi hluthafa eða þess stuðnings sem við fjöllum um hér, eru hér undir. Það verður allt skoðað. Auðvitað veitir það ákveðið traust ef við samþykkjum málið hér, og er innlegg í málið að því leyti til. En ef við setjum okkur í spor þeirra sem eru að íhuga að styðja við félagið með fjármunum sínum eru þeir alveg í sömu stöðu með að þeir fjármunir geti tapast. Þá dugar ekki það eitt og sér að við séum tilbúin til að segja: Þetta félag skiptir almannahag miklu máli. Við verðum bara að horfa ískalt á stöðuna. Í öllu falli er það stórt próf og það er mikilvægt að félagið fari í gegnum það próf sem slíkt útboð er. Þar verður kostnaðarmódelið skoðað, þar verða áætlanirnar undir, tekjumódel o.s.frv.

Ef við veltum því fyrir okkur hvað við erum í raun að reyna að tryggja þá er það efnahagsleg viðspyrna, að allt sé til staðar í öllum öðrum málum. Það er ekkert einfalt að segja: Við skulum veita fyrirtækjum í ferðaþjónustu skjól, greiða fyrir það að fyrirtæki segi fólki upp störfum, þegar við segjum á sama tíma að við viljum verja störf og skapa ný störf. Það er hins vegar verið að segja að við ætlum öll að vera tilbúin þegar viðspyrnan er möguleg. Þá er auðvitað verðmæti í því að vera með félag sem hefur þessi leiðakerfi og er tilbúið til að fara af stað. Það er samhengið sem við þurfum að setja hlutina í. Við getum auðvitað ekki svarað öllum spurningum í 1. umr., en hér hafa komið fram fjölmargar mjög verðmætar spurningar fyrir nefndina til að vinna með. Okkar bíður bara þessi vinna í þessu vandasama verkefni fyrir okkur í þinginu að afgreiða þessi mál.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, virðulegi forseti.