150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna sérstaklega þessum sjónarmiðum sem komu fram hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé einmitt nauðsynlegt að hv. fjárlaganefnd fari mjög gaumgæfilega yfir þessar að mínu mati mjög markvissu ábendingar. Mér finnst hv. þingmaður vera, kannski ekki í fyrsta sinn, á svipuðum nótum og Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar. Hann skrifaði á Twitter um þrjár aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi opnaði hún landið, í öðru lagi lokaði hún því og í þriðja lagi veitti hún flugfélagi ríkisábyrgð. Eftir að landinu var lokað er árfarvegurinn eiginlega að þrengjast í þá átt að það er erfitt að mínu mati að sneiða fram hjá ríkisábyrgð fyrir Icelandair nema til komi önnur gögn sem geti hjálpað til við aðrar leiðir. Við höfum ekki fengið að sjá það enn þá í stjórnarandstöðunni og mér finnst það vont.

Mig langar að spyrja hv. þingmann eftir þessa innihaldsríku ræðu: Gerði hv. þingmaður fyrirvara við afgreiðslu málsins út úr þingflokknum eða mun hv. þingmaður þá greiða atkvæði á móti ef það kemur nokkurn veginn óbreytt úr fjárlaganefnd? Og í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að ég hef aðeins nefnt samkeppnisrekstur og lánalínan er veitt til allrar samstæðunnar og innan hennar eru einingar sem eru í miklum samkeppnisrekstri við aðrar ferðaskrifstofur þótt þeim hafi fækkað: Telur hv. þingmaður tryggt að ekki verði dregið á þá lánalínu og það fjármagn nýtt að hluta til í samkeppnisrekstur? Telur hv. þingmaður einhverja hættu á að lánið og ríkisábyrgðin fari í samkeppnisrekstur?