150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:49]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmann vil ég bara segja: Mæltu manna heilastur, þegar hann víkur að þeim möguleika að samkeppnislöggjöfin sé orðin úrelt. Hún er kannski ekki úrelt, ég er ekkert endilega viss um það, en það er margt í samkeppnisréttinum sem menn hafa ekki hugsað alveg til enda. Það er þannig. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir og ég er sammála honum í því að það er auðvitað eitthvað ankannalegt ef menn ætla að endilega að einblína á fyrirtæki sérstaklega. Samkeppnisrétturinn er líka þannig að þar er fjallað mikið um tilteknar vörur. Það getur verið áralöng deila fyrirtækja við samkeppnisyfirvöld, og kostað þau hundruð milljónir króna, um það hvort ein vara sé svokölluð staðkvæmdarvara annarrar vöru. Þetta getur skipt mjög miklu máli, bara upp á líf eða dauða tiltekinna fyrirtækja, að skilgreina hvort fyrirtækið er í markaðsráðandi stöðu og hvernig það megi haga sér. Það er nú eitt í þessari samkeppnislöggjöf sem þarf að endurskoða og það sama má kannski segja um það ef menn ætla að líta á tiltekin fyrirtæki þannig að þau séu grundvöllur þess að veita einhverja þjónustu. Það þarf að rökstyðja það sérstaklega að eitthvert fyrirtæki sé svo kerfislega mikilvægt að enginn annar geti veitt þjónustuna.

Það sem ég vildi sagt hafa er að til þess að fyrirtæki verði talið kerfislega mikilvægt þá þarf það að vera þannig að það sé bókstaflega enginn annar sem getur veitt þjónustuna. Það kann að vera þannig í þessu máli með Icelandair að ekkert annað flugfélag fái lendingarleyfi í Bandaríkjunum. Það kann að vera þannig. Ég þekki það ekki. Það er þess vegna sem ég beini því til hv. fjárlaganefndar að skoða það sérstaklega.