150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tvö atriði eru náskyld, annars vegar lög um ríkisábyrgðir, sem eru úreld, og hins vegar samkeppnislög. Í lögum um ríkisábyrgðir er fjallað sérstaklega um það hvaða áhrif ríkisábyrgðin hefur á samkeppni þannig að það er ekki svo fjarri lagi að við hugsum um þetta. Hvernig getur fyrirtæki orðið kerfislega mikilvægt, bara af því að það veitir kerfislega mikilvæga þjónustu? Er það þá ekki komið í einokunarstöðu sem er samkeppnisvandamál? Og ef við veitum kerfislega mikilvægu fyrirtæki ríkisábyrgð til viðbótar við einokun erum við þá ekki á hálum ís? Ég velti þessu fyrir mér því að við í fjárlaganefnd fengum gesti í morgun sem sögðust vera tilbúnir til að dekka þessa þjónustu, sem er svo mikilvægt að halda og tryggja flugferðir til og frá Íslandi. Erum við kannski að hugsa um möguleika á lausn sem væri svipuð og hjá Póstinum, ákveðna alþjónustukvöð? Hver veit? Var sá möguleiki skoðaður? Það er fyrsti möguleikinn sem við í fjárlaganefnd þurfum að skoða og spyrja hvaða möguleikar voru skoðaðir. Ef margir möguleikar voru skoðaðir er það frábært, þá fáum við umfjöllun um kosti og galla hvers möguleika. Ef það var bara einn möguleiki skoðaður, er það ekki dálítið ámælisvert? Við fréttum það á fundi með fjármálaráðuneytinu í Hörpu um daginn að möguleikinn um hlutafé hefði t.d. verið sleginn mjög fljótt út af borðinu og var í rauninni ekkert með í öllu ferlinu. Af hverju? Við í fjárlaganefnd þurfum að byrja á því að spyrja: Hvaða möguleikar voru í boði og getið þið sagt okkur hverjir voru kostir og gallar hvers möguleika fyrir sig?