150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:53]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmann að spyrja þeirra spurninga sem hann telur þörf á að spyrja. En þar sem honum er samkeppnisrétturinn hugleikinn og einokunarstaða þá er það þannig í samkeppnislöggjöfinni, og það er nefnilega svolítið magnað, að einokunarstaða skapast aldrei nema fyrir tilstilli hins opinbera. Fákeppni er allt annað. Einokunarstaða skapast ekki nema fyrir tilstilli hins opinbera. Dæmi um það eru t.d. úthlutanir ríkisins á einhverjum leiðum, hvort sem er í flugi eða rútuferðum, einhverjum sérleyfum. Þannig skapast einokunarstaða. Það er einmitt það sem samkeppnisrétturinn neitar oft að horfast í augu við; einokunin verður ekki leyst með einhverjum samkeppnisaðgerðum, það þarf að leysa hana með því að ríkið dragi sig út úr rekstri eða hætti að einoka aðstöðuna. Ég tæki því fagnandi ef hingað inn á þing myndi rata næsta vetur enn og aftur t.d. frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra um breytingar á samkeppnislögum, sem mér finnst reyndar ganga allt of skammt. Ég tel mjög brýnt að það fari fram heildarendurskoðun á samkeppnislöggjöfinni.

Í þessu máli sérstaklega, með ríkisábyrgð, er það líka alveg rétt að öll ríkisaðstoð getur hjálpað til við að búa til fákeppni, draga úr samkeppni. Það er nú þess vegna sem þessir þættir eru skoðaðir í því ljósi og ég hef fulla trú á því að málið verði skoðað í því ljósi.

Að endingu vil ég hins vegar leggja á það áherslu að ríkið sjálft sé ekki að búa til aðstæður sem gera það erfitt fyrir Icelandair að hefja starfsemi og rekstur á ný. Ég hef fulla trú á að Icelandair geti gert það ef (Forseti hringir.) aðstæðurnar eru fyrir hendi og landinu hér sé ekki í raun lokað fyrir ferðamönnum.