150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Mér hefur fundist þetta vera nokkuð góð umræða. Hér er búið að spyrja margra mjög mikilvægra spurninga sem ég treysti að fulltrúar í hv. fjárlaganefnd fari með inn á nefndarfund og reyni að fá svör við. Ég hef ekki skynjað annað en að við séum öll einhvern veginn að reyna að komast að því hver sé hin sanna rétta leið í málinu því að þetta er ekki óskastaða fyrir neinn. Það er enginn sem óskaði þess að það þyrfti á einhvern hátt að beita ríkissjóði, hvort sem væri með ábyrgð sem vonandi kemur ekki til eða einhverjum öðrum leiðum, til að bjarga einkafyrirtæki. Það var enginn sem óskaði þess. En þegar það fóru að berast fregnir af slæmri afkomu, sérstaklega í Covid í vor, þá var þetta töluvert rætt í þingsal og margir sem þýfguðu ríkisstjórnina um svör við því hvernig ætti að koma Icelandair til bjargar vegna kerfislægs mikilvægis fyrirtækisins.

Hér var talað um tilfinningar til Icelandair. Ég tengi ekki við það. Ég hef ekki tilfinningar til kapítalísks fyrirtækis, það er bara þannig. Það getur vel verið að hv. þm. Sigríður Á. Andersen, sem talaði á undan mér, hafi þær en ég hef þær ekki. Mér er alveg sama hvað fyrirtækið heitir sem flýgur með mig út í heim, ef ég gerist svo djarfur að gera það einhvern tíma. Mér er alveg sama hvers lenskir kapítalistarnir sem græða á því flugi eru. Fyrir mér er þetta ekki tilfinningamál. Mér er hins vegar ekki sama hvort þjóðin, fólkið, við, hafi aðgang að þessari þjónustu eða ekki sem eyland úti í ballarhafi.

Fyrir mér er þetta rosalega einfalt mál, eins og kannski allt of margt í lífinu. Mér finnst verkefnið sem við stöndum frammi fyrir vera eftirfarandi: Hvernig tryggjum við það á sem útlátaminnstan hátt að það verði flugrekstur í gangi hérna núna og hann verði það áfram og það verði tækifæri til þeirrar viðspyrnu sem við öll viljum fara í, þegar við ætlum að fara í vörnina og koma okkur upp úr þessu ástandi? Hver er einfaldasta leiðin til þess? Ég held að við séum öll raunverulega að reyna að finna þá leið og sum okkar telja að sú leið felist í því að íslenska ríkið eignist hlut í félaginu, alveg gilt sjónarmið, og einhverjir telja að það gerist bara, að markaðurinn sjái um það, sem er líka gilt sjónarmið. Við höfum talið að þetta sé útlátaminnsta leiðin. Einhverjir telja að svo sé ekki en ég skynja það mun fremur að við séum að spyrja spurningarinnar: Er þetta rétta leiðin?

En hvað erum við að gera? Það sem ég er svo ánægður með við þessa leið er að hér er verið að veita heimild til ríkisábyrgðar sem mögulega kemur aldrei til. Sú staða getur komið upp að það fari ekki ein einasta króna út úr ríkissjóði með þessari leið. Aðrar leiðir sem stungið var upp á þýða jafnvel að það þurfi strax að fara peningar úr ríkissjóði, peningar sem við þurfum nauðsynlega á að halda í önnur mikilvæg verkefni. Það fannst mér plús við þessa leið. Svo finnst mér mikill plús við þá leið að hér eru settir mjög strangir skilmálar, gríðarlega umfangsmiklir skilmálar um hvað þurfi að gera til að af umræddri ríkisábyrgð geti orðið. Það er meira að segja ábyrgðargjald á meðan lánalínan er í gildi.

Ég ætla, forseti, að fá að tala aðeins um skilmálana. Mér finnst þeir aðeins hafa legið óbættir hjá garði í umræðunni og einstaka þingmaður talaði eins og það væru engin skilyrði fyrir þessari leið. Því er ég algerlega ósammála því að skilyrðin eru það ströng, ef svo má segja, að margir hafa gagnrýnt að þau séu allt of ströng, þau séu það ströng að beinlínis sé verið að ganga það langt að núverandi hluthafar séu þynntir út. Það hefur verið gagnrýni frá markaðnum að skilyrðin séu allt of ströng. Ég er hins vegar hinum megin. Mér finnst skilyrðin mjög góð af því að ég lít á mig sem vörslumann ríkissjóðs hér og að við séum að finna leiðina sem tryggir samgöngur við landið, sem tryggir það að fólkið í landinu geti notið þeirrar þjónustu sem fyrirtækið býður upp á, bæði fólksflutninga en einnig vöruflutninga, öryggisins sem það býður upp á og viðspyrnunnar sem við ætlum okkur að fara í.

Hér eru gríðarlega umfangsmiklar tryggingar, með leyfi forseta:

„Til tryggingar skilvísri og skaðlausri endurgreiðslu ábyrgðarþega […] setur ábyrgðarþegi, og eftir atvikum, dótturfélög þess, að lágmarki að veði, vörumerki sitt, vefslóðir, bókunarkerfi og lendingarleyfi í London og New York […], eins og nánar verður útfært …“

Þetta er flugfélagið í raun. Þetta eru ekki flugvélarnar, þær eru kannski ekki heldur svo mikils virði, ég veit það ekki. En þetta er í raun flugfélagið sem sett er að veði. Hv. fjárlaganefnd hlýtur að spyrja spurninga sem Ríkisendurskoðun hefur velt upp, svo dæmi sé tekið, hvernig komust þau að þessari niðurstöðu? En ég lít svo á að hér sé verið að setja eins tryggt veð og mögulegt er. Það eru gríðarlega ströng skilyrði fyrir því hvað lántaki má gera meðan þetta er í gangi, ef af verður. Honum er „óheimilt að greiða arð, lækka hlutafé eða kaupa eigin hluti, eða gera annað sem felur í sér að fjármunum eða eignum félagsins er ráðstafað til hluthafa eða tengdra aðila.“ Þetta eru býsna ströng skilyrði. Það er líka skilyrði að höfuðstöðvar móðurfélags og flugrekstrar verða á Íslandi, sem þýðir hvað? Jú, íslenskir kjarasamningar. Við fylgdumst öll með því sem gerðist hér í sumar og fordæmdum það mörg þegar Icelandair hagaði sér á þann svívirðilega hátt sem það gerði gagnvart flugfreyjum. Hér er verið að tryggja að það verði íslenskir kjarasamningar og það viljum við öll, ég hef ekki skilið annað á umræðunni, að höfuðstöðvar móðurfélags og flugrekstrar verði hér.

Það eru ýmsir fleiri skilmálar, forseti, sem settir eru, til að mynda takmörkun á nýtingu lánsins. Það eru ekki bara þessir skilmálar heldur líka skilmálar um í hvað megi nota fjármunina komi til þess:

„Lántaka skal eingöngu heimilt að nýta lán samkvæmt samningunum til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði lántaka í samræmi við rekstraráætlun félagsins. Til almenns rekstrarkostnaðar teljast m.a. laun og launatengd gjöld, rekstraraðföng, leiga, önnur rekstrartengd gjöld, samningsbundnar afborganir og vaxtagreiðslur í samræmi við rekstraráætlun, olíuvarnir vegna vöru- og þjónustuviðskipta, endurgreiðslur til viðskiptavina, og reglubundið viðhald.“ — Þetta er listi yfir það í hvað má nota fjármunina.

Svo er ákvæði um að þessir samningar fari fyrst út:

„Kveða skal á um í samningunum að lántaka beri að greiða lán skv. samningunum eins fljótt og kostur er og skulu endurgreiðslur af lánunum hafa forgang til 75% af lausu fé hjá lántaka sem myndast í rekstri, […] Fyrirframgreiðsla vegna bættrar stöðu lántaka skal nánar útfærð í samningunum.“

Það er með öðrum orðum, að mínu viti, verið að tryggja eins vel og hægt er í þeirri óvissu sem við búum við núna að komi til þess að ríkisábyrgðin taki gildi verði tryggingin fyrir því að þeir fjármunir skili sér til baka sem best. Og jafnvel meira en bara þeir fjármunir því að eins og ég nefndi áðan er ábyrgðargjald á þessu. Ég held að það sé býsna vel um þetta búið. En síðan vonum við að sjálfsögðu að til þess komi ekki að það verði að virkja ríkisábyrgðina.

Fyrir mér er þetta sú leið, eins og ég sagði áðan, sem er útlátaminnst. Þetta er sú leið sem lætur fjármagnseigendurna, hverjir sem þeir eru, einkaaðilar, lífeyrissjóðir eða hverjir það eru sem núna eiga fyrirtækið, að mestu um að setja í það aukið hlutafé. Nefnd hefur verið hægri/vinstri leið í því samhengi. Mér finnst ekkert vinstri í því að ríkið verði óvirkur eigandi að hluta í einkafyrirtæki. Mér finnst ekkert vinstri við það. Þar sem ríkið hefur stigið inn í flugrekstur hefur sagan sýnt að það er mjög erfitt að komast út úr honum aftur. Það er engin trygging fyrir því, þó að ætlunin sé að vera tímabundinn hluthafi, að hægt sé að losna við þann hlut þannig að vel fari. Það sem er svo líka lykilatriði er að áhættan er í raun minni ef ríkið er kröfuhafi en ekki hluthafi ef illa fer, sem við vonum að sjálfsögðu að gerist ekki. Ef illa fer er staðan sú að hluthafar eru aftar í röðinni en kröfuhafar. Þegar þú ert lánardrottinn ertu framarlega í röðinni þegar búi er skipt. Ef lánardrottinn er með veð eða önnur tryggingarréttindi í eign er kröfunni fullnustað með sölu eignarinnar. Þetta gerist ekki með hluthafa. Það er enn ein röksemdin í mínum huga fyrir því að það sé skynsamlegra að fara þessa leið heldur en að kaupa hlut í fyrirtækinu, hvort sem ætlunin er að það verði tímabundið eða til langframa. Ég held að ef fólk hefur hugmyndir um að ríkið reki flugfélag sé einfaldara að byrja frá grunni, og ég er ekki að leggja það til hér því að ég held að okkar bíði ótal verkefni næstu ár þar sem við þurfum á hverri einustu krónu ríkissjóðs að halda.

Ég hlakka til að heyra hvernig hv. fjárlaganefnd gengur með þetta mál því að mér finnst þingmenn almennt hafa komið fram með mjög góðar og gagngerar spurningar sem þarf að svara mörgum hverjum — eða ekki mörgum hverjum, svo ég leiðrétti sjálfan mig, ég ætla ekki að búa til lista yfir hverjum þeirra þarf að svara, heldur öllum. Ég hlakka til að sjá hvernig hv. fjárlaganefnd tekst á við þetta. En ég ítreka enn og aftur það sem ég sagði í upphafi: Ég held að við séum í stöðu sem ekkert okkar óskaði sér að vera í. Verkefni okkar er fyrir mér það að finna einföldustu og skilvirkustu leiðina.