150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þingmanns um að finna einföldustu og skilvirkustu leiðina. Að við finnum bestu leiðina. Þess vegna hef ég verið að spyrja um hvaða leiðir hafi verið í boði þegar allt kemur til alls því að, eins og fram kemur í lögum um opinber fjármál, þá er tekið fram þegar hið opinbera ákveður að gera eitt umfram annað, að þetta hafi verið valmöguleikarnir sem voru í boði. Við völdum þennan valmöguleika af því að hann er bestur út af þessu o.s.frv.

Í augnablikinu erum við ekki með það í höndunum af hverju aðrar leiðir voru góðar eða slæmar, hverjir voru kostir og gallar þess að fara eða fara ekki hlutabréfaleiðina eða að fara eða fara ekki t.d. alþjónustukvaðaleiðina eða hvað annað sem var í boði. Að fenginni reynslu finnst mér ekki ólíklegt að þær leiðir sem skoðaðar voru gaumgæfilega hafi ekki verið svo margar, jafnvel hafi bara verið tekin ákvörðun tiltölulega fljótlega um þessa leið og það stillt fram og til baka hversu margir milljarðar þetta þyrftu að vera og þar fram eftir götunum, í staðinn fyrir að bera þetta saman við einhverja aðra möguleika. En það kemur þá væntanlega í ljós í vinnslu nefndarinnar þegar ráðuneytið reynir að svara hvaða leiðir voru skoðaðar. Það hefur ekki svarað því enn þá.

Mig langaði bara að ítreka það, af því að hv. þingmaður segir að hann vilji að besta leiðin sé valin, hvort það komi ekki stuðningur frá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, bara almennt séð, og eins í fjárlaganefnd, og skýr svör við því. Reynslan er að svörin eru ekki gríðarlega skýr.