150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek hjartanlega undir það. Þá þarf einmitt að leggja fram valkostina á mjög hraðan og öruggan hátt. Ég er einfaldlega að spyrja um hverjir valkostirnir hafi verið sem í boði voru þegar allt kemur til alls. Þegar maður vinnur hratt byrjar maður á því að safna saman eins mörgum hugmyndum og maður getur og vinnur síðan hratt úr þeim, hendir sumum frá sér mjög fljótt, eins og greinilega var gert með hlutabréfaleiðina, aðrir valkostir lifa kannski aðeins lengur. Á meðan verið er að safna aðeins fleiri gögnum um álitlegu kostina. Spurningin er: Hvaða álitlegu kostir lifðu af? Hversu lengi lifðu þeir af í ákvarðanaferlinu? Því að við höfum heyrt að þetta samtal við Icelandair hafi verið í gangi síðan í mars. En það eru nokkrir mánuðir liðnir, það er væntanlega þó nokkuð af hugmyndum sem búið er að velta upp á þeim tíma. Þetta er ekki það mikil krísustjórnun. Við erum að tala um eina viku sem þingið fær, en þetta samtal er búið að vera í gangi í nokkra mánuði.

Okkar hlutverk er þetta: Allt í lagi, við fáum bara viku en þið eruð búin að vinna með þetta í nokkra mánuði. Sýnið okkur gögnin sem búið er að vinna með í alla þessa mánuði svo við getum tekið ákvörðun um þetta á viku. Við erum tilbúin í verkefnið, að vinna það hratt og vel, að sjálfsögðu, en komið þá alla vega með gögnin sem liggja undir. Hv. þingmaður talaði hér og dásamaði þessa leið. Þar með hlýtur hv. þingmaður að hafa eitthvað til að bera hana saman við því að ef þetta er eina leiðin eru aðrir valkostir ekki teknir svo mikið til greina. Þetta gæti verið mjög góð leið, ég skal alveg taka undir það, skilmálarnir líta alveg ágætlega vel út, en það gæti alveg verið til leið sem lítur miklu betur út ef við myndum fá að sjá hana. Ég hef ekki fengið að sjá hana þannig að ég veit ekki hvort þetta er satt eða ekki. Ég er bara segja að þetta sé möguleiki, það er vandamálið sem ég stend frammi fyrir.