150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég bað í raun um þetta andsvar í tvíþættum tilgangi. Ég hélt framan af að ég þyrfti að fara í andsvar til að kalla eftir afstöðu þingmannsins til þingmálsins sem við ræðum hér en það kom fram að hann telji það útlátaminnstu leiðina fyrir ríkissjóð til þess að hjálpa til við að Icelandair haldist í rekstri. Ég skildi það sem svo að þar með styðji hv. þingmaður málið. Ef það er misskilningur myndi ég gjarnan vilja fá greinarbetri svör um það og hvernig hv. þingmaður sér það.

Hin ástæðan fyrir því að ég bað um andsvar var einfaldlega til þess að mótmæla þeirri staðhæfingu að ríkisstjórnin hafi ekki skýra stefnu eða sýn þegar kemur að þessum málum því að það hefur einmitt komið fram að stefnan og sýnin og markmiðið er það að hér verði vel starfhæft samfélag á öllum sviðum, að sem fæstir sýkist af veirunni og að heilbrigðiskerfið ráði þá við að hlúa að þeim sem veikjast. Það er alveg skýrt og hefur legið fyrir allan tímann.

Forseti, er ræðutími minn búinn eða er klukkan biluð?

(Forseti (WÞÞ): Klukkan stendur eitthvað á sér þannig að ég legg til að ræðumaður klári spurningarnar og síðan fáum við andsvar.)

Ég vil því spyrja hv. þingmann: Telur hann að það eigi að setja bara einhverja eina línu, ekki fara að tilmælum sóttvarnalæknis og ekki laga sig að því sem er að gerast á heimsvísu þegar kemur að veirufaraldrinum, heldur setja bara eitthvert endamarkmið og komast þangað bara á einhvern hátt? Ég held að við séum samt sammála um endamarkið. Þetta fannst mér ekki skýrt en lína ríkisstjórnarinnar er skýr.

(Forseti (WÞÞ): Forseti reynir að koma klukkunni í lag.)