150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Að sjálfsögðu á að hlusta á allar ráðleggingar sem sóttvarnalæknir kemur fram með. En sóttvarnir á landamærum eru ekki einangrun. (Gripið fram í.) — Ég heyri eitthvert væl úr hliðarherbergi, herra forseti. Ég bið um að það sé stoppað.

Það er ekki svo einfalt að þetta sé eingöngu heilbrigðismál. Það er það ekki, þetta er hagrænt mál, enda kemur það fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í dag að skipa á hóp til að skoða hagræn áhrif af sóttvörnum og af þessari veiru. Núna, viku eftir lokun landamæra, á að skipa hóp til þess að sjá hvað gerðist hérna fyrir viku síðan af því að mönnum hefur náttúrlega brugðið við þegar þeir sáu hvaða áhrif það hafði að flugvélar voru hálftómar og meira en það á einni nóttu, vegna þess að þeir fóru of langt. Menn fóru of langt í því og treystu sér ekki til að taka sjálfstæða ákvörðun. Þeir völdu fimm tillögur af níu sem sóttvarnalæknir lagði til, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði áðan. Það var engin ein tillaga sem menn áttu sjálfir í farteskinu til að máta við það sem þeim var ráðlagt.

Starf stjórnmálamannsins er þannig að hann þarf að taka ákvarðanir. (Gripið fram í.) Það er þess vegna sem það er svo hættulegt að framselja þann rétt til þeirra sem ekki eru til þess bærir að gera það fyrir mann. Það gerir það enginn á endanum af því að við berum ábyrgð á þessu. Við berum ábyrgð á þessum ákvörðunum og við getum ekki lagt það á herðar einhverra annarra að taka þessar ákvarðanir fyrir okkur af því að okkur þykir það óþægilegt eða vont eða eitthvað slíkt. Við verðum einfaldlega að gera það sjálf. Til þess erum við kosin, til þess að leiða, ekki síst á tímum eins og núna. Þess vegna er svo slæmt að stefnan skuli ekki vera skýr og að menn skuli taka flikkflakk og heljarstökk í hverri vikunni eftir aðra.