150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru en um er að ræða frekari aðgerðir á vinnumarkaði. Mikil óvissa ríkir enn á innlendum vinnumarkaði vegna útbreiðslu kórónuveirunnar en ljóst er þó að þegar hefur orðið mikill samdráttur í ýmsum atvinnugreinum eftir að heimsfaraldur veirunnar braust út.

Eins og staðan er í dag veit enginn með vissu hve lengi samdrátturinn mun standa yfir — nema kannski hv. þingmaður sem talaði hér áðan, hann þóttist vita allt undir sólinni — en meðan á þessu stendur verðum við að reyna að sporna gegn áhrifunum og tryggja eins vel og við getum að neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn verði sem minnst.

Flestar breytingarnar í frumvarpinu eru tímabundnar og koma til vegna þessara aðstæðna og er því ekki gert ráð fyrir að þær tilteknu breytingar verði varanlegar. Í þessu sambandi vil ég þó nefna að ég hef ákveðið að setja af stað strax í haust vinnu við heildarendurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins enda eru fjölmörg atriði í þeim lögum sem þarfnast endurskoðunar og full samstaða er um þetta meðal aðila vinnumarkaðar.

Þær tímabundnu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúa meðal annars að lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir en lagt er til að tímabilið sem lögin taka til verði framlengt þannig að þau gildi áfram til ársloka 2021. Markmið þessara breytinga er að tryggja að einstaklingar geti áfram fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni svo lengi sem úrræðinu verður beitt af hálfu heilbrigðisyfirvalda en afar mikilvægt er að fólk fari að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda hvað þetta varðar. Enn fremur er lögð til sú tímabundna breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar að áfram verði næstu tvo mánuði heimilt að greiða atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Einnig er lagt til að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins öðlist tímabundinn rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að sex mánuði í stað þriggja mánaða að hámarki samkvæmt gildandi lögum, enda hafi hann ekki fullnýtt rétt sinn til slíkra bóta á yfirstandandi bótatímabili. Er gert ráð fyrir að hafi hinn tryggði ekki fullnýtt þennan rétt fyrir 1. október 2021 falli niður ónýttur réttur viðkomandi til slíkra bóta, enda verðum við að trúa því að þær aðstæður sem við búum við í dag á vinnumarkaði verði orðnar allt aðrar og betri eftir rúmlega eitt ár.

Í apríl síðastliðnum var komið á fót sérstökum samhæfingarhópi um atvinnu- og menntaúrræði og var hópnum ætlað að skoða stöðu og möguleg menntaúrræði námsmanna og atvinnuleitenda vegna breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi í kjölfar kórónuveirunnar. Hópurinn hefur lagt fram tillögur um aðgerðir í mennta- og vinnumarkaðsmálum fyrir árin 2020–2022. Ein af þessum tillögum er hluti af þeim tímabundnu breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir en um er að ræða átakið Nám er tækifæri þar sem atvinnuleitendur eru hvattir til að stunda nám til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Í þessu sambandi gerir frumvarpið ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitendur um að þeir stundi nám, sem fellur að skilyrðum átaksins, án þess að réttur þeirra til atvinnuleysisbóta skerðist. Um er að ræða eina önn hjá hverjum og einum þátttakanda í átakinu og er miðað við að námið verði stundað vorið 2021, haustið 2021 eða vorið 2022.

Nokkrar breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir á lögum um atvinnuleysistryggingar eru ekki tímabundnar. Má þar nefna að lagt er til að rýmkaðar verði heimildir atvinnuleitenda til að stunda nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur en ljóst er að miklar breytingar hafa orðið að undanförnu hvað varðar skipulag náms. Er meðal annars lagt til að atvinnuleitanda verði heimilt að stunda nám sem skipulagt er samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Þykir það eðlilegt þar sem nám sem skipulagt er á kvöldin og um helgar, í ljósi þess að gert er ráð fyrir að nemendur séu jafnframt þátttakendur á vinnumarkaði, eigi hvorki að hafa áhrif á möguleika atvinnuleitenda til að stunda virka atvinnuleit né á möguleika þeirra til að taka því starfi sem býðst. Enn fremur er lagt til að atvinnuleitendum skuli ávallt vera heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi þegar sótt er um atvinnuleysistryggingar án þess að komi til skerðingar á rétti viðkomandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Hluti af tillögum samhæfingarhópsins, sem ég nefndi áðan, var að styðja við möguleika einstaklinga sem hverfa tímabundið af vinnumarkaði vegna sjúkdóms eða slyss til að verða að nýju virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Í samræmi við þær tillögur er í frumvarpinu lagt til að breytingar verði gerðar á lögum um atvinnuleysistryggingar sem ætlað er að auka líkur á að þeir verði að nýju þátttakendur á vinnumarkaði eftir að þeir verða vinnufærir á ný. Þannig er lagt til að réttur þeirra sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins falli ekki niður fyrr en að tólf mánuðum liðnum í stað sex mánaða samkvæmt gildandi rétti frá þeim degi er einstaklingurinn varð vinnufær á ný. Með þessu er gert ráð fyrir að einstaklingur sem hverfur tímabundið af vinnumarkaði vegna sjúkdóms eða slyss fái meira svigrúm til að nýta sér þjónustu og aðstoð Vinnumálastofnunar til að verða að nýju þátttakandi á vinnumarkaði eftir að vinnufærni er náð. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um að atvinnutengd starfsendurhæfing sem launamaður hefur stundað á þeim tíma sem hann telst óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss svari til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þá er lagt til að við útreikninga á ávinnslutímabili, þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar, skuli líta til síðustu 24 mánaða í stað tólf mánaða samkvæmt gildandi rétti frá þeim tíma sem hinn tryggði sannanlega hætti störfum þar sem hann varð óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss.

Virðulegi forseti Ég held að okkur sé öllum ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og ég óttast að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar frá því sem þegar er orðið. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu heimila við þessar krefjandi aðstæður og stöndum með fjölskyldum landsins og það erum við að gera með þessum aðgerðum. Ég legg því mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt hér á Alþingi sem allra fyrst í ljósi þess hve aðkallandi þær aðgerðir eru sem felast í frumvarpinu.

Ég vil líka taka fram að þetta er ekki, eins og fram hefur komið, fyrsta aðgerð ríkisstjórnarinnar í vinnumarkaðsmálum. Þetta mun heldur ekki verða síðasta aðgerð ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki því að ljóst er að við munum á næstu vikum og mánuðum þurfa að vera á tánum og vera tilbúin til að bregðast við hratt og í góðu samstarfi og samráði við alla hlutaðeigandi. Það er það sem við erum að leggja áherslu á og munum gera það áfram. Það er einn af mestu styrkleikum ríkisstjórnarinnar að hún er tilbúin til að bregðast við, tilbúin til að endurskoða áform sín og hlusta og við munum gera það og ætlum, til að mynda varðandi hlutabótaleiðina sem framlengd er í þessu frumvarpi, að fara í samtal við vinnumarkaðinn um mögulegar breytingar hvað það snertir.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.