150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér er á ferðinni mikilvægt mál sem ég vil koma inn á síðar í 2. umr. Ég vildi þó nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra út í lokunarstyrkina sem þessu tengjast. Nú er fresturinn samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2020, sem við samþykktum í byrjun sumars, að renna út 1. september nk. Ég tel að það sé afar brýnt að framlengja þennan frest til að sækja um vegna þess að Skatturinn hefur ekki náð að klára afgreiðslu umsókna og beiðna um endurskoðun ákvörðunar. Þannig geta fyrirtæki sem eru í þeirri stöðu að geta ekki skilað inn umsókn fyrir frest gert það. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli að beita sér fyrir því að umsóknarfresturinn um lokunarstyrk verði framlengdur eitthvað áfram en hann á að renna út 1. september eins og ég nefndi.