150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:53]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og segja að orðum mínum áðan um að þingmaður vissi allt sem væri undir sólinni var ekki beint til hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur heldur fremur til þess þingmanns sem var hér í lokaræðu í öðru máli sem var á undan.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá er það tillaga ríkisstjórnarinnar á þessum tímapunkti að framlengja tekjutengda tímabilið. Ég hef sagt að við munum áfram þurfa að skoða aðgerðir í vinnumarkaðsmálum. Við ætlum okkur í frekara samtal við aðila vinnumarkaðarins, bæði Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfinguna, um frekari aðgerðir í þeim málum og hlutabótaleiðina kannski meira gagnvart Samtökum atvinnulífsins.

Atvinnuleysisbótarétturinn er eitthvað sem við munum skoða frekar. Ég vil benda á að ríkisstjórnin er að gera mjög mikið í þeim málum án þess að verið sé að útiloka að meira verði gert vegna þess að við munum þurfa að grípa til frekari aðgerða eftir því sem atvinnuleysið dregst á langinn. Á þessu ári er áætlað að 74 milljarðar renni til atvinnuleysisbóta. Til að setja það í samhengi var upphæðin 24 milljarðar árið 2009, fyrsta árið eftir efnahagshrunið, þannig að við setjum þrisvar sinnum hærri upphæð í atvinnuleysisbætur, þ.e. ríkissjóður, en gert var árið eftir efnahagshrunið. Ég veit að vissulega er þörfin mikil. Við erum að stíga mikilvæg skref með lengingu á tekjutengda tímabilinu. En eins og ég segi, við útilokum ekkert, við erum að fara yfir málin og munum gera það áfram og ætlum að eiga núna á næstu vikum þéttara samtal við aðila vinnumarkaðarins um nauðsynlegar næstu aðgerðir í vinnumarkaðsmálum.