150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:58]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og segja: Samanburður á tölum var ekki til þess hugsaður að gera lítið úr nauðsyn þess að bæta við heldur til að vekja athygli á því að við erum að setja gríðarlega háar fjárhæðir til atvinnuleysisbóta úr ríkissjóði. Sá sem hér stendur sér ekki eftir því. Hins vegar er stóra atriðið hvernig við getum eflt vinnumarkaðinn og komið fólki til vinnu á nýjan leik. Það sem ég sagði var að við ætlum okkur í frekara samtal við aðila vinnumarkaðar um næstu aðgerðir. Þar horfum við til atvinnuleysistryggingakerfisins og hvaða breytingar þurfi að gera áfram á því. Við höfum verið að opna þau lög með reglulegum hætti síðan Covid kom upp með þannig aðgerðum að við erum í dag komin í 74 milljarða sem er um 50 milljörðum meira en við gerðum ráð fyrir á þessu ári. Munum við þurfa frekari aðgerðir? Já, við munum þurfa þær.

Hvað varðar hlutabótaleiðina þá held ég, og er sannfærður um, að það sé mjög skynsamlegt á þessum tímapunkti að framlengja hana í skamman tíma á meðan við eigum samtal um hvað við sjáum fyrir okkur að taki við sem úrræði fyrir vinnumarkaðinn. Við verðum að horfa á það í samhengi. Rétt eins og hv. þingmaður benti á var hlutabótaleiðin gríðarlega mikilvæg þegar mestu lokanirnar voru hér í samfélaginu. Þegar verslanir, hárgreiðslustofur, snyrtistofur o.s.frv. voru lokaðar þá voru mjög margir á hlutabótaleiðinni. Þeim hefur fækkað mjög mikið og eru 2.500–3.000 manns á hlutabótaleiðinni í dag. Við þessar aðstæður og þær sóttvarnaaðgerðir sem var verið að grípa til nýverið er skynsamlegt að setjast niður með þeim aðilum sem munu nýta úrræðið, hvort sem það eru fyrirtæki, heimili eða einstaklingar, og ræða hvað við sjáum fyrir okkur í næstu skrefum og það erum við að gera með framlengingunni og ég er sannfærður um að það muni leiða okkur að góðri niðurstöðu.