150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

972. mál
[20:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er komið fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru er varðar atvinnuleysi og frekari aðgerðir á vinnumarkaði. Það er ýmislegt gott í frumvarpinu. Ég fagna því t.d., og við í Samfylkingunni, að ríkisstjórnin sé loksins farin að hlusta á okkur í Samfylkingunni þegar kemur að nauðsyn þess að lengja tekjutengingartímabil atvinnuleysisbóta um þrjá mánuði. Það er vel gert og hefði mátt gera fyrr, t.d. þegar við komum með þá tillögu hér fyrr í sumar. Maður fagnar samt því sem vel er gert.

Ég fagna því líka að framlengja eigi hlutabótaleiðina en er nokkuð skúffuð yfir því að ríkisstjórnin treysti sér ekki til að framlengja þessa mikilvægu leið í lengri tíma en tvo mánuði. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég tel og hef talið allan tímann, og talaði mig hása í vor fyrir því, að það skipti miklu máli að viðhalda ráðningarsambandi milli launafólks og atvinnurekenda í stað þess að setja mikla krafta í að stuðla að uppsögnum fólks. Því miður, herra forseti, lagðist ríkisstjórnin í vegferð í sumar sem beinlínis ýtti undir uppsagnir og þess vegna fækkaði þeim sem voru á hlutabótum umtalsvert. Það kemur fram í þessu frumvarpi að þeim hafi fækkað mjög mikið. Það voru 36.000 manns á hlutabótaleiðinni en eru komnir niður fyrir 3.000 nú um miðjan ágúst. Einhverjir fóru í vinnu, einhverjir þurftu ekki lengur að vera á hlutabótaleiðinni en ekki er hægt að horfa fram hjá því að 21.000 einstaklingar eru á atvinnuleysisskrá í dag og einhverjir þeirra væru betur settir á hlutabótum en á atvinnuleysisskrá. Einhverjir eru ekki komnir á atvinnuleysisskrá vegna þess að þeir fóru á uppsagnarfrest í boði ríkisstjórnarinnar. Þegar uppsagnarfresti lýkur, mögulega 1. september í kjölfar þess að fyrirtækjum var beinlínis vísaður vegurinn inn í styrkveitingar á uppsagnarfresti, er ljóst að einstaklingum á atvinnuleysisskrá mun fjölga mjög.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa þess efnis að lengt verði í tímabilinu er varðar tekjutengingu og fögnum við því þessu frumvarpi félagsmálaráðherra sem lengir það úr þremur mánuðum í sex, en líka að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Það skiptir mjög miklu máli vegna þess að grunnatvinnuleysisbætur eru of lágar, þær eru 240.000 kr. eftir skatt. Það er harla erfitt fyrir allan þennan stóra hóp, sem í ágústmánuði voru 12.000 einstaklingar og verða fleiri í næsta mánuði, að lifa á svo lágri framfærslu. Það er alveg ljóst. 12.000 einstaklingar þurftu að framfleyta sér og fjölskyldum sínum í þessum mánuði á 240.000 kr. Eins og ég sagði áðan er ekki hægt að ætlast til þess að þetta fólk borgi reikningana sína með því að verið sé að setja meiri peninga í málaflokkinn í dag en var fyrir 11 árum, það er ekki þannig. Fólk borgar ekki reikningana sína með 11 ára gömlum tölum. Fólk borgar ekki reikningana sína með því að fleiri séu atvinnulausir og þess vegna þurfum við að setja meiri peninga í úrræðið. Tölurnar tala sínu máli. Þetta eru 240.000 kr. en lægstu launin á landinu eru 335.000 kr. og er það ekkert sérstaklega drjúgt skammtað.

Maður veltir því fyrir sér hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að fjölskyldum reiði af í vetur. Mér finnst það harla naumt skammtað og mér finnst skrýtið, þegar maður horfir á tillögu um lengingu hlutabótaleiðarinnar, af hverju tekin er ákvörðun um að framlengja hana um tvo mánuði. Ef ekki er þörf á hlutabótaleiðinni, eins og mér fannst hæstv. félagsmálaráðherra ýja að, þá fer fólk einfaldlega úr þessu úrræði. En ef það getur gagnast vinnuveitendum að halda fólki í 50% hlutastarfi lengur en í tvo mánuði mun það alltaf gagnast samfélaginu. Það er alveg ljóst af því að þetta fólk fer á atvinnuleysisbætur eftir þetta og það er alltaf betra að hafa einhverja vinnu og eiga möguleika á að aukið verði við starfið í stað þess að vera búinn að missa vinnuna.

Mig langar að ræða aðeins um þessar tillögur varðandi námsmenn af því að þegar þetta var kynnt í fjölmiðlum á dögunum mátti skilja það sem svo að nú væri verið að opna fyrir það að fólk á atvinnuleysisskrá geti skráð sig í nám. Hins vegar þegar frumvarpið er rýnt sér maður hins vegar að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá geta skráð sig í nám sem flokkast í skólakerfinu sem nám með vinnu og ég fagna því að það sé a.m.k. verið að hleypa fólki í slíkt nám. Það er mikilvægt að hrósa fyrir það sem vel er gert. En þetta nám, sem er yfirleitt í háskólum landsins, er gríðarlega dýrt. Það kostar, eftir því sem ég best veit, um 4 millj. kr. að fara í tveggja ára háskólanám í Háskóla Íslands sem er miðað við nám með vinnu, 4 millj. kr. fyrir það nám. Maður veltir fyrir sér hvernig einstaklingar eiga að fara að því að borga það á sama tíma og þeir hafa misst vinnuna.

Það kemur líka fram í bráðabirgðaákvæði að Vinnumálastofnun verði heimilt að gera sérstakan námssamning við einn atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Skilyrði til að vera í þessu er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. sex mánuði áður en hann óskaði eftir samningi. Ef við sjáum fyrir okkur að viðkomandi atvinnuleitandi hafi t.d. farið á uppsagnarfrest 1. júlí, þegar það úrræði gafst, þá er viðkomandi skráður atvinnulaus 1. september og ætti þá að vera búinn að uppfylla þetta skilyrði 1. mars. Þetta þýðir auðvitað að haustönn 2020 og vorönn 2021 eru út úr myndinni fyrir þennan einstakling.

En gott og vel. Það sem er ekki að sjá í þessu frumvarpi er að fyrir þá sem eru námsmenn og hafa framfleytt sér með hlutastarfi með námi, eins og helmingur stúdenta gerir samkvæmt upplýsingum frá stúdentafélögum landsins, er ekkert gert. Fyrir þann hóp er ekkert gert. Hluti þess hóps á engan rétt á námslánum eða námsstyrk, ýmist vegna þess að þau eru búin að klára rétt sinn þar eða mögulega vegna þess að þau hafa lent í einhverjum vanda á lífsleiðinni áður en þau hófu nám sem gerir það að verkum að þau eiga ekki rétt á neinum stuðningi frá Menntasjóði. Þessi hópur verður núna að hætta í námi. Þessir einstaklingar, sem líkast til eru þeir einstaklingar sem við ættum helst að grípa, þurfa nú að hætta í námi sínu en það þurfa líka þeir sem fá þennan stuðning af því að þeir mega klára önnina sína til að fá stuðning frá ríkisstjórninni en mega ekki halda áfram í námi. Það er í raun verið að segja nemum að hætta í námi til að þeir geti nýtt sér aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Maður veltir þessum hugmyndum fyrir sér. Það er gott að bjóða þeim sem eru á atvinnuleysisskrá að fara í nám og það hljómar mjög vel. En ég hef áhyggjur af því hversu skammt er gengið.

Í frumvarpinu er líka verið að fjölga þeim einingum sem námsmaður má stunda á önn án þess að þurfa að hætta á atvinnuleysisbótum úr 10 í 12 ECTS-einingar. Það skilur eiginlega enginn alveg af hverju, af því að fullt nám er 30 einingar, hvort sem um er að ræða framhalds- eða háskólastig. Þessi tilfærsla er námsmönnum sem ég hef verið í sambandi við, og ég hef séð framlagningu þeirra, m.a. í þessari samráðsnefnd sem var fengin til að vinna að þessu, illskiljanleg. Þau reyndu að koma þessum ábendingum öllum á framfæri en ekkert var á þau hlustað, ekki neitt. Ég hef séð á minnisblaði frá þeim og í bókunum frá þeim að þau eru mjög ósátt við að það standi í greinargerð að málið hafi verið unnið í fullu samráði við þau og þau séu nefnd þar og tilgreind af því að ekki var komið til móts við eina einustu ábendingu frá stúdentum í þessari vinnu. Þau óskuðu sérstaklega eftir því að ákveðin bókun þeirra fylgdi skjalinu sem var skilað inn frá hópnum en því miður var ekki orðið við því.

Eitt í viðbót sem ég vil minnast á og það er varðandi átakið Nám er tækifæri. Í þessum hugmyndum sem eru hér er annars vegar talað um að fólk megi fara í nám sem er ein önn hér í námssamningi, að það sé einnar annar nám, og hins vegar er í greinargerð talað um tveggja anna nám. Þetta er eitthvað sem við í hv. velferðarnefnd munum þurfa að glíma við, að komast að því um hvað verið er að fjalla.