150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við erum stödd í atvinnuleysiskreppu sem birtist þungt og birtist sem ójafnt högg. Eftirspurnin hvarf úr ákveðnum atvinnugreinum með dramatískum afleiðingum á meðan aðrir í samfélaginu finna jafnvel lítið fyrir högginu. Það er ástæða til að ætla að þessi kreppa verði frekar stutt. Þær væntingar segja okkur að stjórnvöld eiga og verða að bregðast ákveðið og hratt við. Þegar við stóðum frammi fyrir fyrstu aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins hafði það allt um góðan árangur að segja að þjóðin stóð saman. Þar held ég að miklu hafi skipt að þremenningarnir sýndu á spilin. Þau sögðu þjóðinni hver staðan væri og hvers vegna þau lögðu til erfiðar aðgerðir.

Þessi samstaða þjóðarinnar er því miður að hverfa og þar ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð því að hún hefur verið óskýr í svörum og stefnu. Hún hefur stundum birst þjóðinni sem klárlega ósamstiga um aðgerðir sínar. Hún opnaði landið í sumar án þess að greiningar virtust liggja fyrir um áhrifin og það sama gerðist svo aftur þegar stjórnin lokaði landinu. Þess vegna hafa myndast andstæðar fylkingar í landinu, gjá á milli hópa og atvinnugreina þegar sameiginlegur óvinur er og á að vera þessi bráðsmitandi veira.

Auðvitað er staðan sú að enginn kostur er auðveldur og ég ætla ekki að halda því fram, en þá skiptir öllu máli að stjórnvöld séu skýr um aðgerðir og ástæður að baki. Ný fjármálastefna ríkisstjórnarinnar er ekki skýr. Ef ríkisstjórnin er að veðja á að áfallið sé tímabundið, eins og fjármálaráðherra segir, hvers vegna þá að draga aðgerðir á langinn? Hvers vegna að bregðast ekki hraðar við? Skrefin eru of lítil og takturinn of hægur. Allt sem er hvetjandi fyrir störf núna er af hinu góða. Það er ekki bara það mannlega í stöðunni heldur ábyrgt efnahagslega. Það á að auðvelda fólki að skapa sér tækifæri og tekjur, lækka álögur á vinnuveitendur (Forseti hringir.) og skapa fyrirtækjum hvata til að ráða fólk. Ábyrg efnahagsstjórn þegar tímabundið ástand gengur yfir er að hafa kjarkinn til að standa með fólki (Forseti hringir.) og fyrirtækjum á meðan það gengur yfir.