150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við erum í miðri alþjóðlegri kreppu sem gengur út yfir heilsufar og efnahag þjóða. Við þessar aðstæður höfum við þurft að skipta um gír, setja í lága drifið til að tosa Ísland áfram hægt og bítandi með drif á öllum hjólum í gegnum blinda ófæru. Það er ekki sama hvernig haldið er um stýrið og það skiptir máli að hlusta á þá sem reynslu hafa um borð. Því miður skortir mikið á að öll áhöfnin sé með í ráðum um leiðir og úrræði. Þetta höfum við í Samfylkingunni harðlega gagnrýnt allt þetta erfiðleikatímabil.

Í öllum kimum samfélagsins er talað um mikilvægi þekkingar, nýsköpunar og frumkvöðlastarfs og tek ég sannarlega undir það, og að samhliða sé hugað að enduruppbyggingu gróinna og öflugra atvinnugreina um leið og úr rætist. Og það mun gerast. Um allt land er að finna mýmörg dæmi um hugmyndir og verkefni, grænar lausnir, hugvit og tækniþróun af öllu tagi. Þau þarf að styrkja nú sem aldrei fyrr, gefa þeim vítamín, setja inn hvata, auðvelda sprotafólki að ryðjast fram bæði innan lands og á alþjóðavísu, að sækja sér styrki og stuðning.

Umsóknarferli er flókið ferli og raunar á sviði fagfólks. Hér þarf ríkið að koma inn af krafti og beinlínis taka þann þátt að sér, eins og víða er þekkt í nágrannalöndum. Hér þarf áræði stjórnvalda, stórhug og pólitískt örlæti í verki. Mörg góð verkefni verða að engu, bara vegna þess að ekki tekst að vinna góðar umsóknir.

„Til eru fræ sem fengu þennan dóm, að falla í jörð en verða aldrei blóm“, sagði skáldið góða frá Fagraskógi. Skiljanlega verður aðeins lítill hluti mögulegra verkefna að fullburða stórum viðfangsefnum sem slá í gegn. Það er eðli nýsköpunar.

Herra forseti. Nýsköpun er langhlaup sem skilar sér í ávinningi fyrir nýtt samfélag til lengri tíma. Sáning er fyrsta skrefið. Sá sem ekki sáir fær enga uppskeru.