150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Í störfum þingsins í dag kemur fram að það er mikil og góð líðan í ríkisstjórninni og þingmeirihlutanum. Hér á dagskránni eru góð mál sem taka á þeirri ógnarstöðu sem uppi er í samfélaginu og um heim allan auðvitað. Ríkisstjórnarmeirihlutanum í þinginu hefur farnast vel í þeim aðgerðum sem hingað til hafa verið gerðar og er almenn ánægja með þær. Ég finn hjá almenningi að það er gríðarleg ánægja með þær aðgerðir. Það er líka almennur skilningur á því í samfélaginu að yfirboð og tal um aðgerðaleysi eigi lítinn hljómgrunn, eins og kemur reyndar oft fram úr þessum stól.

Virðulegur forseti. Á Suðurnesjum er atvinnuleysi komið langt yfir hættumörk. Nú er tækifærið til að efla þar nýja uppbyggingu skipaþjónustuklasa, efla uppbyggingu við höfnina í Njarðvík svo þar sé hægt að koma fyrir skipalægi fyrir stór skip og höfnin geti þannig líka varið slippinn, það væri grundvöllur að skipaþjónustuklasa sem gæti skapað mjög fljótlega 100 ný störf og jafnvel mun fleiri.

Virðulegur forseti. Samgöngur við Vestmannaeyjar eru enn og aftur komnar í umræðu. Það er mikið áhyggjuefni að innanlandsflugið virðist eiga mjög erfitt uppdráttar. Það eru allt of miklir skattar á innanlandsflugið og það verður almennt að taka á rekstrarvanda þess til að halda uppi flugi til hinna dreifðu byggða og ekki síst til Vestmannaeyja eins og annarra. Það er líka vandamál varðandi rekstur Herjólfs. Þar hefur vantað inn í þjónustusamninginn verulegar upphæðir og það þarf að taka á því um leið og útgerðin þarf að taka á rekstrarkostnaði skipsins.