150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þarf því miður að ítreka umkvörtunarefni sem flutt hefur verið hér margsinnis í gegnum árin og áratugina. Það eru störf þingsins sjálf. Suma hluti er bara hægt að gera hratt eða vel, en ekki hvort tveggja í senn. Eitt af því er að mynda sér upplýstar skoðanir og taka ákvarðanir sem eru upplýstar og byggðar á ólíkum sviðsmyndum, ólíkum útfærsluatriðum og þess háttar. Þegar Alþingi setur sér tímamörk, eins og nú hefur verið gert gagnvart þessum þingstubbi, þá er áberandi, og fyrir mitt leyti óþolandi, hvernig öll áherslan fer á að skila öllu verkinu í tæka tíð. Tæk tíð þýðir hvenær þingmenn komast héðan út og eitthvert annað, alveg sama hvers vegna tímapressan er. Það er alveg sama hversu málefnaleg rök eru fyrir því að skila hratt, það breytir ekki þeirri staðreynd, virðulegi forseti, að þegar fólk flýtir sér þá getur það ekki gert hlutina jafn vel. Það er fórnarkostnaðurinn. Það er ekki spurning um viðhorf, það er ekki spurning um viðleitni, það er spurning um þetta einfalda fyrirbæri, eðlisfræðilögmálin, sem gera okkur ekki kleift að gera alla hluti sem við viljum á núll sekúndum. Að gera hlutina vel kostar einfaldlega tíma. Þá þarf annaðhvort að veita tímann eða gera hlutina verr. Það veldur mér sífellt vonbrigðum að sjá Alþingi velja aftur og aftur síðari kostinn. Yfirleitt þegar ég held þessa ræðu eða sambærilega í t.d. hv. forsætisnefnd eða þingnefnd, er ég minntur á að þetta sé nú allt bara eins og það hafi verið gert í áranna og áratuganna rás.

Virðulegi forseti. Ég skora á hv. þingmenn að athuga hvert álit almennings sé á vinnubrögðum okkar. Að þetta hafi alltaf verið svona er nákvæmlega punkturinn.