150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Nú á tímum er víða uppi alvarleg staða, alvarleg staða í samgöngum, eins og í Vestmannaeyjum. Staðan varðandi atvinnuástand og rekstur fyrirtækja um land allt er líka alvarleg. Ég ætla að fjalla um alvarlega stöðu á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er hvað mest og ástandið kannski ekki mjög gott. Fréttir af Suðurnesjum eru samt góðar og ég vil árétta að tækifærin til uppbyggingar eru gríðarlega mörg. Það er hægt að fara í mikla og öfluga atvinnuuppbyggingu strax með góðri samvinnu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, við atvinnulífið.

Ég vil leggja mikla áherslu á að það getur verið mjög bjart fram undan á Suðurnesjum ef allir leggjast á eitt. Ég ætla að nefna aðeins þrjú tækifæri af mörgum. Það er skipaþjónustuklasinn, sem var nefndur hér fyrr í dag, sem er mikilvægt að koma af stað til að auka þjónustuna hér heima svo að ekki þurfi að flytja íslensk skip til annarra landa og einnig til að fá erlend skip hingað til okkar. Svo er það leit og björgun. Á Suðurnesjum eru til staðar allir innviðir til að byggja upp öfluga leitar- og björgunarþjónustu fyrir norðurslóðir. Ég held við eigum að hefjast handa strax. Síðan er mikilvægt að fylgja eftir heimild sem Alþingi hefur veitt stjórnvöldum til að leggja hlutafé í Farice til að leggja gagnasæstreng til Íslands. Það gæti leitt af sér mikla uppbyggingu á Suðurnesjum sem og um allt land. Það kæmi öllum vel. Það er hægt að byrja á þessu strax. Þessi verkefni þurfa öll á mikilli þjónustu að halda á byggingartímanum og að honum loknum. Þau skapa varanleg störf.

Í lokin vil ég leggja áherslu á að sveitarfélögin á Suðurnesjum (Forseti hringir.)drífi sig að taka ákvörðun um það hvort Landsnet megi leggja Suðurnesjalínu 2 svo að öll þessi verkefni geti orðið að veruleika.