150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

Störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við búum við breytta heimsmynd nú um mundir. Við erum stödd í annarri bylgju Covid-19, sem segir okkur að það gæti orðið langhlaup að endurreisa efnahagskerfið. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið þau að leggja fram aðgerðapakka. Stærstu hagkerfi heims, svo sem Bandaríkin, Bretland, Japan og fleiri, hafa mátt horfast í augu við hagtölur sem eru þær svörtustu í manna minnum, og mesta samdrátt í landsframleiðslu síðan samantekt á þeim tölum hófst. Við það bætist vaxandi atvinnuleysi í þessum löndum sem ekki á rætur í samdrætti ferðamennsku heldur fjölda annarra greina. Skoðanakannanir í fjölmörgum löndum undanfarið á vilja fólks til ferðalaga sýna að hann er vægast sagt í sögulegu lágmarki. Bendir það til þess að vonir um að þegar bóluefnið berist muni fjöldi ferðamanna færast í fyrra horf séu á sandi byggðar.

Covid-19 hefur þegar truflað matvælaframleiðslu í heiminum og vöruflutninga, þar á meðal flutning matvæla. Í ljósi þess er fæðuöryggi okkar Íslendinga með eigin framleiðslu nauðsynlegt og raunhæft markmið. Rafmagn með vatnsorku, jarðvarma eða vindorku hérlendis er hægt að framleiða með minni tilkostnaði en víðast hvar annars staðar í heiminum. Því eru hæg heimatökin ef vilji er til staðar til að nýta þá orku enn betur. Við eigum erfið misseri í vændum efnahagslega, ferðamaðurinn á hvíta hestinum er varla á leiðinni hingað á morgun. Fæðuöryggi okkar veltur á framleiðslu utan landsteinanna eins og staðan er í dag. En hvernig erum við í stakk búin til að takast á við það að hugsanlega muni hlutirnir versna umtalsvert áður en þeir batna? Ég myndi í það minnsta leggja höfuðið rólegar á koddann á kvöldin ef ríkisstjórnin væri með svör við þeim spurningum. Kallað er eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í baráttunni við það ástand sem nú ríkir. Almenningur og fyrirtæki kalla eftir upplýsingum um það.