150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kynningu á nefndaráliti meiri hluta. Það eru auðvitað fjölmargar spurningar sem kvikna við meðferð þessa máls. Ég vil byrja á því að spyrja hv. þingmann hvernig meiri hlutinn hefur í hyggju að ávaxta þann 1 milljarð sem á að geyma í varasjóði. Seðlabanki Íslands spurði sérstaklega út í það í umsögn sinni og það er ekkert á þetta minnst í nefndaráliti.

Þá vil ég einnig spyrja hv. þingmann hvernig hún getur séð að slíkt lán sé til 25 ára þegar breytingartillaga meiri hluta hljómar svona:

„Hlutdeildarlán skulu endurgreidd við sölu íbúðarhúsnæðis eða að liðnum 10 árum frá lánveitingu.“

Tíu ár eru ekki 25 ár. Það eru tíu ár og ég átta mig ekki alveg á því hvernig hv. þingmaður sér að þetta sé í raun 25 ára lán þegar það skal endurgreiða við sölu, eða að liðnum tíu árum. Fleiri spurningar í seinna andsvari.