150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi það að Seðlabankinn hljóti bara að ætla að ávaxta heilan milljarð króna af skattpeningum landsmanna eins og hann geri venjulega er ekki svar við fyrirspurn Seðlabanka Íslands um hvernig meiri hlutinn og stjórnvöld hafi í hyggju að ávaxta þetta fé. Ef Seðlabankinn ætti bara að gera þetta einhvern veginn þá væri hann ekki að spyrja meiri hlutann þessarar spurningar. Þetta er óábyrgt svar hjá hv. þingmanni.

Varðandi það að þetta séu 25 ára lán og það sé heimilt þá er lánastofnunum á Íslandi sem og lífeyrissjóðum heimilt að lána fé. Það þýðir ekki að maður fái lán. Þó að það sé heimilt þýðir það ekki að sá sem gengur út frá því að fá hlutdeildarlán, sem þingmaðurinn segir að gildi í 25 ár, fái (Forseti hringir.) endurnýjun láns að tíu árum liðnum af því að þá á hann að borga það upp eins og stendur í breytingartillögum meiri hlutans. (Forseti hringir.) Það er því ekki hægt að halda því fram að þetta sé 25 ára lán þegar það stendur í breytingartillögunum að það skuli greiða upp að tíu árum liðnum.