150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir framsöguna. Þetta er í stóru myndinni mjög jákvætt mál, og jákvætt markmið sem þarna liggur að baki. Það breytir því ekki að hér er um að ræða enn ein inngrip ríkisvaldsins í markað sem ansi stór hluti landsmanna á mikið undir að virki. Margir eiga hagsmuna að gæta þarna, ekki eingöngu þeir sem þetta úrræði nær til heldur þeir sem eru með mest af sparifé sínu í eigin húsnæði.

Ég spyr hv. þingmann hér í fyrra skiptið um rök fyrir því að krafan um nýtt húsnæði sé sett fram með þeim undantekningum á landsbyggðinni, sem reyndar vantar líka rök fyrir að mínu mati. Þegar þetta úrræði er fyrst nefnt til sögunnar í tengslum við kjarasamninga var skortur á nýju húsnæði. Það er ekki lengur samkvæmt gögnum þannig að ég spyr hvort ekki hafi komið til tals, á meðan vinna stóð yfir í sumar við að endurskoða þetta, að létta á þessu. (Forseti hringir.) Þetta er dýrara húsnæði, bara það að fara með peninginn í nýja húsnæðið (Forseti hringir.) eyðir hluta þess ávinnings sem fólk sem nýtir sér úrræðið fær. Þetta skekkir myndina og það sem mér þykir (Forseti hringir.) einna verst er að þetta dregur úr frelsi fólks til að velja sér búsetu, þess fólks sem þarf að nýta þetta úrræði.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn um að virða hin knöppu tímamörk.)