150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka andsvarið og þetta er þá bara atriði sem við höldum áfram að vera ósammála um, ég kem kannski betur inn á það í ræðu minni. Mig langar aðeins að velta öðru upp, atriði sem ég hef hug á að vita hvort menn hafi skoðað. Það fór fram heilmikil vinna í nefndinni eða meiri hlutanum í sumar til að laga málið og margt gott var gert. En það er þetta með endurgreiðsluna, vaxtaleysið og hlutdeildina í hækkun íbúðarverðs. Staðreyndin er sú að það er oft dýrt að vera fátækur í þeirri merkingu að þegar upp er staðið borgar fólk oft meira fyrir þau úrræði sem það verður að nýta sér. Þetta er á vissan hátt eitt af þeim úrræðum þegar litið er til þess að vísitöluhækkun íbúðarhúsnæðis síðustu ára er töluvert meiri en þeir vextir sem bjóðast almennt á íbúðarlánum. Með öðrum orðum verður eignamyndun tekjulágs fólks, sem nýtir sér þetta úrræði, minni af því að þetta kemur í staðinn fyrir vextina. Það eina sem mig langar að biðja hv. þingmann um að nýta mínútu sína í, ég er búin með mína mínútu og hef varla náð að orða spurninguna, er: Var skoðað að setja eitthvert þak þarna, þ.e. ef (Forseti hringir.) mikil eignamyndun yrði á markaði, að það væri ekki endilega sjálfgefið að allt það færi til (Forseti hringir.) ríkissjóðs heldur væri einhvers staðar þak þegar sannanlegt væri að ríkissjóður hefði fengið eitthvað fyrir sinn snúð?