150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að biðja hv. þingmann að hjálpa mér að skilja aðeins betur rökin á bak við breytingu sem meiri hlutinn gerði yfir sumarið. Í fyrsta lagi varðandi þennan varasjóð upp á 1 milljarð á ári, hvort ekki þurfi að koma honum skýrar fyrir í lagagreininni. Sérstaklega vegna þess að í þessum lögum er beinlínis heill kafli um varasjóð húsnæðismála sem er í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga. Ég reikna ekki með því að það sé ætlun meiri hlutans að leggja milljarð til sveitarfélaganna í þessu frumvarpi. Þarf ekki að skoða það betur í nefndinni?

Í öðru lagi er sú breyting að setja 20% lágmark utan höfuðborgarsvæðisins. Ég er dálítið hugsi vegna þess að sveitarfélögin eru á móti þessu. Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til í umsögn sinni að þarna verði settur inn meiri sveigjanleiki og bendir t.d. á að sveitarfélögin séu með húsnæðisáætlanir og séu þar með best í sveit sett til að meta þörfina. Á ekkert að hlusta á sveitarfélögin í þessu?