150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að við hefðum þurft betri tíma til að ekki hefði komið upp allur þessi misskilningur hjá formanni nefndarinnar. Mér finnst svo margt sérstakt málflutningi hv. þingmanns, t.d. að ef við förum að hvetja til byggingar á hagkvæmu húsnæði úti á landi kalli það á tómar íbúðir. Því spyr ég hv. þingmann hvort hún hafi ekki farið yfir húsnæðisáætlun sveitarfélaganna og hversu mikil þörf er fyrir þetta. Það verður væntanlega ekki farið í úrræðið nema þörf sé metin á því. Það fer enginn byggingarverktaki að byggja hagkvæmar íbúðir eða breyta eldra húsnæði ef hann telur ekki eftirspurn eftir því. Þetta er nú bara einfalt dæmi.

Varasjóðurinn er hugsaður til að mæta hugsanlegum útlánatöpum ríkissjóðs. Hann er ekki til að auka framlagið. Það var aldrei talað um það. Mér finnst þetta með landsbyggðina bara mjög sérstakt. Það stakk mig svolítið djúpt, að við séum að fara að framleiða tómar íbúðir á landsbyggðinni. Ég veit ekki af hverju þetta ætti að vera til að skekkja framboðið eða eftirspurnina. Þetta hlýtur alltaf að þurfa að haldast í hendur, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Ég vil þá bara spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki fylgst betur með í umræðunni.