150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið sem er mjög gott. Hvort sú sem hér stendur telur líklegt að 800 íbúðir á tíu ára tímabili geti raskað íbúðamarkaði? Þegar hámarksþörf á landsbyggðinni er samkvæmt nýjustu upplýsingum rúmlega 800 íbúðir, (ÓGunn: Á ári.)þar sem um er að ræða mjög sértækt úrræði sem eingöngu á að gagnast þeim allra tekjuminnstu, eingöngu þeim sem geta ekki með nokkru móti fundið fjármagn fyrir útborgun, þeim hópi sem fellur inn í þetta þrönga skilyrði og að auki þar sem ég hef lesið umsagnir þeirra sem betur þekkja til, þá kann það nefnilega vel að vera.

Það sem mér finnst óheppilegt í málinu er að sagt er: Ef eftirspurnin verður minni þá má fjármagnið bara ganga til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er takmörkuð auðlind og mér finnst óheppilegt að meiri hlutinn skuli ekki hafa fundið út hvenær það gerist. Af því að einnig kom fram í vinnu nefndarinnar að ekki megi færa fjármagn á milli ára. Ef eftirspurnin verður minni en 4 milljarðar á ári þá fellur framlagið bara niður. Það verður ekki nýtt á næsta ári. Það verður ekki hægt að taka 4 milljarða eitt árið og 2 milljarða næsta ár og svo 6 o.s.frv. af því að þá riðlum við fasteignamarkaðnum (Forseti hringir.) að mati þeirra sem best þekkja til. Og af því að við erum ekki sérfræðingar (Forseti hringir.) þá er best að hlusta á þá þegar við þurfum að taka ákvarðanir.