150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir seinna andsvar. Honum er tíðrætt um að íbúðaþörf á landsbyggðinni sé 890 á ári. Ég sé hvergi í umræddu skjali að um sé að ræða árlega íbúðaþörf. Þörfin er að hámarki 890 íbúðir og að lágmarki 730. Þetta er óuppfyllt íbúðaþörf í hverjum landshluta, áætluð óuppfyllt þörf, ekki að byggja þurfi 900 íbúðir á hverju ári.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að lögmálið um framboð og eftirspurn gildi að sjálfsögðu líka á höfuðborgarsvæðinu. Það er einmitt það sem ég hef verið að tala um og mun fleiri tala um, það er skortur á greiningu í málinu. Þegar verið var að ræða málið, þegar ráðuneytið var kallað að borðinu o.s.frv., þá virtust rannsóknir á framboði og eftirspurn ekki alveg fullnægjandi í málinu. Við skulum þá vona að eftirspurnin verði töluvert minni og að mun færri komist inn í úrræðið, eða hvað? Mér finnst það dálítið óheppilegt af því að ég hélt að við ætluðum að búa til úrræði sem myndi grípa þann hóp sem þarf raunverulega á úrræðinu að halda en skilyrðin koma mögulega í veg fyrir að hann geti nýtt það, t.d. skilyrði um hámarksráðstöfun í húsnæði af framfærslueyri af því að þar skarast mjög (Forseti hringir.) tekjur og hámarksgreiðslubyrði af húsnæði.