150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta velferðarnefndar. Fyrst vil ég nefna það sem kemur fram í hagsmunaskráningu minni að ég á eign sem er í útleigu. Ég tel ekki að það geri mig á nokkurn hátt vanhæfan en finnst rétt að halda því til haga til öryggis, sakar alla vega ekki.

Fyrst ætla ég að lýsa starfi nefndarinnar og kannski þingsins almennt og fara aðeins yfir það hverju ég tel ábótavant við þau vinnubrögð sem birtast í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum. Í öðru lagi ætla ég að fara stuttlega yfir nefndarálitið sem er reyndar ekki langt, u.þ.b. ein blaðsíða. Síðast en ekki síst ætla ég að ræða punkta sem hafa komið fram í umræðunni í dag eða punkta sem hafa komið upp við hugleiðingar eftir að nefndarálitið var lagt fram til skráningar og dreifingar.

Hvað varðar málsmeðferðina í nefndinni þá er ég nýr í nefndinni, hef tekið við af hv. þm. Halldóru Mogensen tímabundið, þannig að ég hef ekki verið viðstaddur langflesta fundina, aðeins örfáa, við meðferð málsins. Það hefur þó dugað til að segja ýmislegt um það hvar málið stendur vegna þess að það voru síðustu fundirnir áður en málið var afgreitt úr nefnd og nefndarálit skrifuð. Það er augljóst að það hefði alveg mátt skoða þetta mál betur. Fólk segir með réttu að það sé tímapressa á þessu máli vegna þess að það er afurð lífskjarasamninga, sömuleiðis erum við á þessum þingstubbi og það eru allt saman góð og gild rök en það breytir því ekki, eins og ég fór yfir í lærðri ræðu í störfum þingsins fyrr í dag, að tímaskortur veldur því að hlutirnir eru ekki gerðir jafn vel og annars væri hægt að gera þá. Það er eðli málsins og er óháð öllum afsökunum eða ástæðunum fyrir því að tímaskorturinn er til staðar til að byrja með. Tímaskortur veldur verri vinnu, alveg sama hversu réttlætanlegur og málefnalegur hann er.

Það er áberandi, bæði í umræðum hér og sömuleiðis á þeim fundum sem ég hef setið í nefndinni, að það vantar greiningar í málinu. Fjölmargar spurningar koma upp, bæði hér í pontu og á vettvangi nefndarinnar, þar sem svarið er ekki til, er ekki þekkt. Það er hluti af því sem hefði mátt gera betur og ef ekki, þá með því að afgreiða málið seinna ef það hefði verið mögulegt eða byrja á því fyrr. Það er eins og það er. Mér finnst afskaplega sorglegt að nefndin hafi ekki séð sér fært að vinna málið betur vegna þess að mér finnst hugmyndin góð. Mér finnst þessi hlutdeildarlánahugmynd ágæt og margt mjög áhugavert við hana. Hún er ekki gallalaus frekar en nokkuð annað sem ég er meðvitaður um í fjármálum og hvað þá þegar kemur að langtímafjárfestingum einstaklinga. En hugmyndin er góð, mér finnst hún sniðug. Mér finnst hún ganga upp. Ég sé engar innri rökvillur í henni sem gera hana vonda. Að því sögðu þá skipta útfærsluatriðin gríðarlega miklu máli. Það gleymist oft. Það er oft látið eins og útfærsluatriðin séu einhver aukaatriði en það eru akkúrat þau sem skipta sköpum fyrir það hvernig hlutirnir þróast yfir áratugaskeið. Það er áratugaskeið sem fólk er að fjárfesta þegar það kaupir fasteignir, þak yfir höfuðið, alla vega almennt.

Ég ætla að reifa aðeins álit 2. minni hluta. Ég ætla ekki að lesa það orðrétt eins og tíðkast hér, mér finnst það leiðinlegur siður og vil venja okkur af því, mun taka þátt í því. Í stuttu máli: Þetta er góð hugmynd eins og ég fór yfir áðan. Þetta er hluti af lífskjarasamningunum. Málið hefði gott af nánari umfjöllun. Það er mikið útfært í reglugerðum sem eru enn ekki til. Auk þess er óljóst hvernig kerfið mun reynast, að miklu leyti vegna þess að útfærsluatriðin eru ekki þekkt og greiningarnar og rannsóknirnar sem þyrfti til að búa til vissu um það hvað framtíðin ber í skauti sér í kjölfar lagasetningar þessa frumvarps er ekki þekkt. Það er því mjög mikilvægt að fylgst sé mjög vel með því hvernig þetta kerfi þróast strax frá upphafi, alveg frá fyrsta degi. Það er mjög mikilvægt að yfirvöld séu með puttann á púlsinum á því hvernig þetta reynist, hver vandamálin séu og ekki síst vandamál neytendanna sjálfra. Ég hugsa að þau vandamál sé erfiðast að greina í upphafi vegna þess að oft kann neytandinn ekki einu sinni að lýsa þeim. Stundum er vandamálið skilningsleysi á kerfinu og menn eiga oft erfitt með að koma til móts við það í kerfinu sökum kerfislegs skilningsleysis.

Í fimmta lagi er í nefndarálitinu komið örstutt inn á leigumarkaðinn. Það er einkenni heilbrigðs leigumarkaðar að sumt fólk vill vera á leigumarkaði. Það fylgja því kostir ef leigumarkaðurinn er heilbrigður. Það krefst ekki langtímafjárfestinga. Það býður upp á ákveðið frelsi varðandi færanleika og þess háttar. Það þarf ekki að sinna viðhaldi eignarinnar. Þannig er það þegar ástandið er heilbrigt á leigumarkaði. Mér finnst skorta umræðu um það hvernig sé hægt að gera leigumarkaðinn á Íslandi heilbrigðari og sanngjarnari gagnvart leigjendum vegna þess að áherslan fer svo hratt á séreignarstefnu, að allir landsmenn vilji og þurfi að eiga eigið þak yfir höfuðið. Eflaust vill meiri hlutinn það, vel rúmur meiri hluti, en ekki allir og hópurinn sem ýmist vill leigja eða mun halda áfram að neyðast til að leigja má ekki gleymast. Við eigum ekki að láta eins og hann skipti ekki máli eða hagsmunir hans séu á einhvern hátt minni. Þeir eru það ekki, þeir eru mikilvægir. Það skiptir máli að hafa heilbrigðan leigumarkað. Þá þurfum við líka bara svona með tíðarandanum að átta okkur á því að það er eðlilegt að hafa leigumarkað. Það er alveg eðlilegt að leigja húsnæði. Það er ekki sjálfkrafa vandamál. Það er auðvitað vandamál ef fólk fær ekki að velja, hvort sem það vill eiga eða leigja eða hvað.

Þá verð ég að nefna það sem ég ætla að kalla hrunhópinn. Það er fólk sem átti eignir fyrir efnahagshrunið 2008, missti þær eignir í hruninu og er í dag jafnvel enn þá á alls konar svörtum listum, fær ekki lán. Hagsmunasamtök heimilanna bentu tvisvar á það, í tveimur umsögnum, að vandamál þessa hóps er ekki endilega það að hann hafi ekki ráð á útborgun eða hann hafi ekki ráð á láni, jafnvel frekar þungu láni, heldur að hann fær ekki lán, hann fær ekki fyrsta eða annars veðréttarlánið sem þarf til að hlutdeildarlánin komi til greina yfir höfuð. Vandi þessa hóps er ekki fjárskortur í sjálfu sér, þ.e. við eðlilegar kringumstæður væri það ekki vandamál, en hann þarf lán og getur ekki fengið lán. Þetta úrræði kemur ekki til móts við þann hóp að neinu verulegu leyti. Það er reyndar gott í frumvarpinu, verður að segjast, að þar er fyrsta eign skilgreind þannig að umsækjandi hafi ekki átt fasteign áður eða ekki síðustu fimm ár. Það er góðra gjalda vert. En það kemur ekki til móts við hópinn sem fær ekki lán frá lánastofnunum vegna svartra lista og þess háttar.

Þá verð ég að segja að þótt það standi í nefndaráliti 2. minni hluta, og síðar hafi verið fjallað um það hér, að úrræðið eigi að koma lágtekjufólki vel, fólki sem er í þeirri stöðu að geta ekki safnað sér fyrir útborgun, þá hef ég efasemdir um að það komi lágtekjufólki vel. Það er ekki síst vegna þess að skilyrðin fyrir því að fá hlutdeildarlán eru að viðkomandi aðili taki ekki lán, þ.e. fyrsta veðréttarlánið, til lengri tíma en 25 ára. Hægt er að fá undanþágur frá því en þá skal lánið vera óverðtryggt. Ég skil þau rök, ég skil hvers vegna það er þannig. Ég ætla að fara yfir það frekar á eftir. En eftir stendur að margt lágtekjufólk ræður ekki við óverðtryggt 40 ára lán eða verðtryggt 25 ára lán, það þarf verðtryggt 40 ára lán til að geta staðið undir greiðslubyrðinni. Það þýðir ekki að þau lán séu góð hugmynd, ég fer yfir það á eftir ef tíminn endist mér. En ég hef nú frá ýmsu fleiru að segja þannig að við sjáum hvort það takist.

Síðast en ekki síst, eins og ég nefndi áðan, þarf að fylgjast með þessu úrræði. Það þarf að fylgjast með því hvernig það verður í reynd á gólfinu á markaðnum næstu mánuði vegna þess að markaðurinn breytist. Um það hafa aðrir talað í pontu í dag, að markaðurinn breytist.

Þessi hugmynd kom fram í lífskjarasamningunum sem voru gerðir fyrir meira en ári, fyrri part seinasta árs. Þá var markaðurinn allt öðruvísi en hann er í dag, auðvitað vegna Covid og eflaust annarra þátta líka sem hafa kannski ekki jafn afdráttarlaus áhrif á markaðinn. Núna er mikil sala í gangi. Vextir eru mjög lágir á íslenskan mælikvarða og leigumarkaðurinn er allt öðruvísi vegna þess að það er svo mikið af húsnæði sem er núna skyndilega tiltækt til langtímaleigu, húsnæði sem áður var nýtt í skammtímaleigu fyrir ferðamenn sem eru ekki hérna og verða ekki hérna í verulegum mæli, eftir því sem maður fær séð, í óákveðinn tíma. Við vitum ekki heldur hvernig hlutirnir þróast eftir það. Við erum hérna að setja fram úrræði sem er góð hugmynd en það fæddist í allt öðru umhverfi en við erum í núna. Nokkrir umsagnaraðilar koma inn á þetta. Þetta eru ekki í sjálfu sér rök gegn úrræðinu. Þetta þýðir bara að það er enn þá óljósara en ella hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa vegna þess að hugmyndin fæddist þegar markaðurinn var annar.

Nú hef ég gert stuttlega grein fyrir mínu stutta nefndaráliti 2. minni hluta og ætla yfir í aðra punkta sem þó eru margir skyldir því sem hefur verið sagt. Málið ber þess merki að það er hreinlega varhugavert að beita úrræðinu of mikið. Það er samkvæmt Seðlabankanum sem sendir inn umsögn sem ég mæli með að fólk lesi. Hann er mjög afdráttarlaus og skýr í málflutningi sínum um að ef úrræðið taki til of margra hafi það áhrif á markaðinn og þá gæti Seðlabankinn þurft að bregðast við. Almennt er það ekki gott að Seðlabankinn þurfi að bregðast við einu eða neinu vegna þess að hann gerir það með hækkun vaxta eða með því að takmarka útlán eða með því að leggja stein í götu fjármálastarfsemi umfram það sem er æskilegt fyrir neytendur. Það er annað merki um að það þurfi, að mér finnst, að skoða þetta úrræði miklu betur áður en það er lögfest. Það er eflaust hægt að koma í veg fyrir eitthvað af þeim áhrifum eða í það minnsta að við séum undirbúin og Seðlabankinn undirbúinn fyrir tilteknar breytingar og hægt sé að bregðast við með hætti sem er ekki of skaðlegur, alla vega ekki svo skaðlegur að það komi niður á gagnsemi frumvarpsins og lögfestingu þess. Það mat er alltaf erfitt.

Það er annað sem mér finnst óþægilegt við þetta frumvarp, eins og reyndar oft þegar ríkið ætlar að stíga inn einhvers staðar og hjálpa fólki sem er þeirri aðstöðu að það þarf hjálp og hefur gott af hjálp. Því fylgir ofboðslega mikil stýring, markaðsstýring í raun og veru. Það er sjálfsagt óhjákvæmilegt að einhverju leyti en það er alveg þess virði að hafa þetta í huga og reyna að draga úr þeirri stýringu þar sem það er mögulegt og passa að hún sé ekki umfram það sem nauðsynlegt er. Stýringar eru í eðli sínu slæmar; þær geta verið nauðsynlegar en eru í eðli sínu slæmar þannig að við viljum ekki meira af þeim en við þurfum, alla vega ekki ég. Sem dæmi er sett það skilyrði, fyrir utan breytingartillögu meiri hlutans, að þetta séu að megninu til nýjar byggingar sem um ræðir. Minn skilningur á því er að ríkið, sem er í reynd að fjárfesta í hluta þessara eigna, þarf að geta gengið að því nokkurn veginn sem vísu að eignin hækki í verði eða haldi í það minnsta raunvirði sínu yfir langan tíma. Þetta er í raun og veru hluti af fjárfestingu sem ríkið gerir og það fylgir því væntanlega áhætta að setja þá fjárfestingu í gamlar íbúðir sem ekki er vitað hvernig verður viðhaldið í framtíðinni og hvort verð eða raunvirði eignarinnar lækki með tilheyrandi tapi fyrir ríkissjóð. Þetta er málefnalegt sjónarmið en felur í sér ákveðna stjórnun sem er að öðru leyti ekki æskileg, nefnilega þá að fólk sem nýtir þetta úrræði þarf að velja sér svæði þar sem eru nýjar byggingar. Við erum óhjákvæmilega að stýra því svolítið hvar þetta fólk leitar eftir húsnæði.

Annað atriði er að 20% eru eyrnamerkt landsbyggðinni. Eyrnamerkt er kannski ekki sanngjarnt orð en 20% þessara úthlutana eiga að fara til uppgerðs húsnæðis á landsbyggðinni þar sem það er mögulegt. Hv. 7. þm. Norðvest., Halla Signý Kristjánsdóttir, fór ágætlega yfir það áðan í andsvari minnir mig frekar en ræðu, gott ef ekki ræðu líka. Ég skil alveg það sjónarmið en eftir stendur að þetta er ákveðin stýring og hún er í eðli sínu slæm þótt hún sé kannski málefnaleg og nauðsynleg. Þetta eru vandamálin sem fylgja því að fara þessa leið.

Sömuleiðis eru það hin ýmsu skilyrði reglugerða um bæði byggingarnar og umsóknirnar sem við þekkjum ekki enn þá. Þær hafa ekki verið skrifaðar mér vitandi, þær hafa alla vega ekki verið birtar. Það er því erfitt að meta áhrifin af þeim og hver stýringaráhrifin verða nákvæmlega. En óhjákvæmilega verður þetta til þess að stýra markaðnum að einhverju leyti.

Síðan er eitt sem ég skil minna og minna eftir því sem ég pæli meira í því. Það er 6. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins, sem fjallar um að það megi ekki leigja út húsnæði sem er keypt með aðstoð hlutdeildarláns. Öryrkjabandalag Íslands gerir athugasemd við þetta og ég tel að nefndin hefði mátt gaumgæfa þetta betur og velta betur fyrir sér. Kannski vinnst tími til þess milli 2. og 3. umr. þótt ég efist um það, miðað við tímapressuna. Fólk getur alveg þurfti að leigja út eign sína tímabundið af fullkomlega málefnalegum ástæðum, ekki að það sé neitt ómálefnalegt við það að leigja út eignir yfir höfuð. Fólk fer kannski til útlanda í einhverja mánuði og þá er svolítið hart að þurfa að greiða allan kostnað af því að eiga húsnæði án þess að fá neinar tekjur á móti. Það er dæmigert að fólk sem fer utan í nokkra mánuði setur eignina sína í skammtímaleigu, ekki til að græða einhverja peninga í sjálfu sér heldur til að eiga fyrir rekstrarkostnaði og lánum af eigninni á meðan viðkomandi býr annars staðar og er væntanlega ekki í vinnu hérlendis en sjálfsagt er það líka misjafnt. Þetta er kvöð sem ég átta mig ekki alveg á. Eftir því sem ég kemst næst er að þetta sé tilraun til að koma í veg fyrir misnotkun, dettur mér í hug, að fólk fari að nota þessi hlutdeildarlán þannig, en kannski eru til betri rök fyrir þessu sem ég hef ekki enn þá rekið augun í. Eins og ég segi þá er ég nýkominn í nefndina og þurfti að kynna mér málið á methraða. Ég hefði alla vega haft gott af því að ræða þetta atriði betur.

Spurning sem kom upp er: Hvað gerist ef fólk neyðist til að flytja af einhverjum ástæðum? Segjum að það komi upp erfiður sjúkdómur í fjölskyldu eða eitthvað breytist í lífi manneskju, mjög stórtækt, sem gerir að verkum að viðkomandi getur ekki búið lengur þar sem hann býr. Þá þarf hann væntanlega að selja og þá uppfyllir hann ekki lengur skilyrði um fyrstu eign til að mega kaupa aðra eign. Mér finnst enn þá svolítið óskýrt hvernig verður brugðist við því. Væntanlega verður fjallað um það í reglugerðum en það væri gott að hafa séð þær fyrir fram og fengið góð svör við þessu.

Ég vona að sjálfsögðu að svörin við eitthvað af þessum áhyggjum mínum komi fram síðar í umræðunni eða leynist í skjölum sem ég hef ekki rekist á enn þá eða að tillögur komi til með að bæta úr þessu því að auðvitað viljum við að úrræðið virki vel.

Þá ætla ég yfir í annað sem er kannski erfiðara að eiga við og varðar í raun fasteignakaup almennt og það er flækjustigið. Flækjustig er erfitt og hættulegt. Nú móðga ég sjálfsagt rosalega marga af okkar ágætu borgurum en það er augljóst, í kjölfar hrunsins og umræðunnar sem hefur verið um verðtryggingu alla tíð síðan, að fólk skildi ekki lánin sín. Það skildi ekki hvað það var að fara út í. Það var ofboðslega mikið af fólki sem skildi ekki hvernig lánin myndu breytast eftir hinum eða þessum aðstæðum. Það var vitað að það gæti orðið verðbólga á Íslandi og það myndi hækka lánin. Það var ekki leyndarmál, þetta var vitað. En flest fólk sem vinnur við eitthvað annað en fjármál eða þingstörf eða einhvers konar sérfræðimennsku er almennt ekkert rosalega vel að sér um langtímafjárfestingar og fasteignakaup eru langtímafjárfesting. Það er alveg eðlilegt að fólk hafi ekki þá þekkingu sem þarf til að taka upplýstustu ákvörðunina. Þess vegna þarf fólk mikla leiðsögn við að taka réttar ákvarðanir, hvort það varðar verðtryggingu, verðtryggt eða óverðtryggt lán — ég myndi nú reyndar næstum því alltaf mæla með óverðtryggðu — fasta vexti eða breytilega vexti, hvort það sé skynsamlegt að taka jafngreiðslulán eða með jöfnum afborgunum eða til 40 ára, 25 ára eða hvað. Allt eru þetta ákvarðanir sem neytandi þarf að taka og þarf að skilja afleiðingarnar af ákvörðunartöku sinni í hverri einustu vídd. Hlutdeildarlánin bæta við víddum og það er vægast sagt óljóst hvernig eigi að finna út úr því, að sumu leyti vegna þess að reglugerðirnar eru ekki komnar en annað held ég að sé bara eðli fjármálagjörningsins. Ríkið fjárfestir að hluta til í eigninni og fær það „endurgreitt“ þegar eignin er seld eða eftir 10–25 ár með því að fá meira til baka, væntanlega vegna þess að söluvirði eignarinnar er hærra en þegar hún var keypt. Það eru „vextirnir“ eða ávöxtunin sem ríkið fær fyrir fjárfestingu sína. Mér finnst það ekkert vitlaust pæling, mér finnst hún skynsamleg í grundvallaratriðum, en hún felur náttúrlega í sér að ef neytandinn ætlar að spyrja eftir þrjá mánuði hvar lánið hans stendur er svarið ekki mjög skýrt, ef viðkomandi ætlar að meta það hvað hún komi til með að seljast á, hann þarf að vita söluverðið á eigninni.

Venjulega er fasteignamat notað til slíkra útreikninga, t.d. til að reikna út fasteignagjöld og miða við lánshlutföll hjá lánastofnunum og þess háttar. Ég fæ ekki séð að það sé notað í þessu frumvarpi heldur einhvers konar mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og fasteignasala og þess háttar. Það er ekki óyfirstíganlegt en það er flóknara en að fletta því upp í heimabankanum og í mesta lagi að miða það við fasteignaverð. Því ólíkt láni sem fólk getur almennt bara flett upp í heimabankanum sínum og séð hvernig það standi, hver höfuðstóllinn sé og hvað sé búið að borga af því og allt það, er þarna ekki að finna fasteignamat eða mat á söluvirði eignarinnar. Það væri þá fasteignamat eða því um líkt sem breytist auðvitað frá ári til árs og er metið út frá alls konar forsendum sem ég ætla ekki að tíunda hér, enda þekki ég þær ekki einu sinni.

Þetta þýðir að ef neytandi ætlar eftir t.d. tvö ár að borga niður eitthvað af þessari skuld þá þarf hann að byrja á að finna út úr því hver hún er. Það er væntanlega líka af þeirri ástæðu sem það er 5% mark þarna sem ég áttaði mig ekki á í upphafi hvers vegna var. Flest fasteignalán í dag virka þannig, vonandi, að það er hægt að greiða inn á þau. Stundum er einhver uppgreiðslukostnaður sem er almennt ekki hár eða oft ekki til staðar í dag, sem betur fer enda ógeðslegt fyrirbæri. Sá sem vill borga inn á lánið til að eignast meiri hlutdeild í eigninni með árunum — það gæti verið gulrótin fyrir einhvern sem er búinn að kaupa fasteign með hlutdeildarláni — þarf að byrja á að finna út úr því hvað 5% eru, hversu hár höfuðstóll lánsins er í raun og veru. Það er sú prósenta af einhverju verðmati á eigninni, ekki fasteignamatinu eftir því sem ég fæ best séð. Vissulega liggur það ekki fyrir vegna þess að húsið er ekki á sölu og það er ekki búið að selja það og söluverðið er eitthvað sem þarf að meta. Það er ekki einhver tala sem hægt er að fletta upp og reikna út. Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að það er þessi 5% kvöð um greiða inn á lánið vegna þess að það er svolítið vesen að finna út úr því hvað það á að vera, hvernig neytandinn á að meta þá fjárfestingu sína ef hann veit ekki hvert matsvirðið er.

Þar sem lánið er í reynd vaxtalaust, nema við skiljum hækkun þessa mats sem ávöxtun, sem hún er náttúrlega í eðli sínu, þá gerir þetta allt saman neytandanum frekar erfitt að taka upplýstar ákvarðanir um hvernig hann vill haga fjármálum sínum. Segjum að einhverjum áskotnist eitthvert fé af einhverjum ástæðum, fær launahækkun eða selur bílinn sinn eða hvaðeina. Þá þarf neytandinn að vita hvernig hann getur best ráðstafað því fé og það er erfiðara í þessu kerfi. Eins og ég nefndi áðan er ekki endilega til rosalega góð lausn á þessu vegna þess að langtímafjármálagerningar eru pínu flóknir miðað við það sem fólk hefur vanist, t.d. að fá útborgað einu sinni í mánuði og kaupa sér mat og bensín og eitthvað svoleiðis. En þess heldur er mikilvægt að hlutirnir séu skýrir, fyrirsjáanlegir og gegnsæir og það sé hægt að finna þær upplýsingar sem neytandinn þarf til þess að taka sem upplýstastar ákvarðanir. Því fórnum við svolítið með svona kerfum.

Breytingin á því að lánið sé greitt til baka í síðasta lagi 25 árum eftir lántöku niður í að það sé greitt niður eftir 10–25 ár flækir líka kerfið aðeins. Ég tek alveg gild þau rök hv. framsögumanns meiri hlutans að lánið sé til 25 ára, en það þurfi að fara í þessa ráðgjöf að tíu árum liðnum og sé enn þá þörf á hlutdeildarláninu þá fái viðkomandi að halda því í fimm ár og svo aftur fimm ár og aftur fimm ár. Allt í góðu með það. En þetta flækir líka málið. Það gerir það flóknara og erfiðara að finna út úr því fyrir neytandann, sem ætlar að hafa góða yfirsýn yfir fjármálin og taka upplýstar fjármálaákvarðanir, hvað sé skynsamlegast að gera í stöðunni hverju sinni.

Nú vill svo til að ég er svo heppinn að eiga örlítið eftir af tíma þegar ég er búinn með flesta þá punkta sem ég ætlaði að nefna, sem hv. 11. þingmaður Suðvesturkjördæmis fagnar, heyri ég. Það er þess virði að nefna að í umsögn VR kemur fram sú skoðun, sem mér sýnist rétt og vona að sé rétt, að þetta úrræði komi til með að draga úr umsvifum verðtryggingar. Það er mjög jákvætt ef svo er. Verðtrygging er annað fyrirbæri sem er ekkert rosalega flókið fyrir þann sem sest niður og ætlar sér að skilja það og setja upp í töflureikni og eitthvað svoleiðis. En fyrir fólk sem er bara að hugsa um að eignast þak yfir höfuðið og hlustar á bankastarfsmann útskýra hvernig það er gert, er það aðeins flóknara, sér í lagi þegar litið er yfir margra áratuga tímabil þar sem verðbólgan er einhvern veginn og verðlag þróast einhvern veginn og sömuleiðis launin og allt þetta. Jafnvel fyrir mjög upplýst fólk sem tekur fjármálin sín föstum tökum og grandskoðar allt ofan í kjölinn eru þetta flóknar ákvarðanir, jafnvel klárasta fólkið sem er með allar upplýsingar og skilur þetta allt ofan í kjölinn getur átt svolítið erfitt með það eða getur alla vega þurft að taka einhverja áhættu. Maður tekur auðvitað alltaf áhættu í einhverju formi. En verðtryggingin er sérlega ógegnsætt fyrirbæri og er algerlega ómögulegt að mati þess sem hér stendur að bjóða upp á hana og tryggja viðunandi neytendavernd. Ég hef haldið skammarræður um verðtrygginguna áður en það hvað verðtryggingin er kerfislega fyrirferðarmikil í hagkerfinu okkar er líka skaðlegt. Það er ekki bara spurning um neytandann. Þetta er líka spurning um hvernig hagkerfið okkar virkar. Verðtrygging fasteignalána hefur alls konar auka áhrif út í hagkerfið sem eru óæskileg eða í skásta falli flókin og skrýtin og það er í eðli sínu líka slæmt fyrir alla hagstjórn og ákvörðunartöku yfirvalda um það hvernig sé best að halda þokkalegum stöðugleika í hagkerfinu. Það er því jákvætt að þetta úrræði dragi úr verðtryggingu og ég vona að það geri það verulega.

Hins vegar, eins og er líka komið inn á, eru ákveðin mörk á því hversu langt þetta úrræði getur náð vegna þess að um leið og er farið að nota það of mikið fara Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið, fjármálaráð og slíkir aðilar að hafa áhyggjur af því að það þurfi að bregðast einhvern veginn við. Það verði skekkja á fasteignamarkaði eða einhverjar breytingar sem geti haft mjög skaðlegar afleiðingar. Þetta er meðal sem við viljum væntanlega bjóða upp á en á sama tíma þurfum við að passa svo vel að nota ekki of mikið af því. Sjálfsagt er hv. 11. þm. Suðvesturkjördæmis einnig sérfræðingur í þeim fræðum. En eftir stendur að það væri auðvitað betra að setja úrræði, ef við gætum fundið það, sem við myndum vilja nýta sem mest. Það væri náttúrlega langbest en það er ekkert víst að það sé mögulegt.

Það er mikilvægt að við samþykkjum þetta frumvarp með opin augun fyrir þessum vanköntum og göllum þannig að þegar reynsla myndast á þetta kerfi séum við vel í stakk búin til að bregðast við með skynsamlegum breytingum. Ég geri fastlega ráð fyrir að við munum gera breytingar í vor og við skulum bara vera undirbúin fyrir það. Þetta er, eins og mörg svona úrræði, ákveðin tilraun og vonandi gengur hún vel. En við skulum ljúka þessu verkefni með opin augun fyrir því að við sjáum ekki mjög langt inn í framtíðina, af ástæðum sem ég hef rakið í þokkalega löngu máli.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta og bíð spenntur eftir andsvari og ætla að hleypa öðrum að.