150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið og fagna því. Ég þakka fyrir upplýsingarnar um leiguna. Ég vona að ég geti komið inn á báða punkta hv. þingmanns í þessu stutta andsvari. Hvað varðar rétt einstaklings til að leigja út þá eru það gleðifregnir. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég kom seint inn í umræðuna í nefndinni og er kannski ekki með öll gögn sem ég hefði viljað hafa ef ég hefði verið nefndinni frá því að málið var lagt fram í sumar.

Eftir stendur hins vegar það sem ég var að fjalla um í ræðu minni, þ.e. stýringin, sem kemur svo gjarnan upp þegar yfirvöld ætla að hjálpa. Þá þarf að setja einhvern ramma utan um það. Ég sem eigandi húsnæðis spyr hvorki kóng né prest að því hvort ég megi leigja það út, ég leigi það bara út ef mér sýnist svo, auðvitað í samræmi við lög og skyldur, en ég þarf ekki að sanna það að einhver nátengdur mér sé veikur eða sanna neitt um vinnuna mína eða tekjur. Ég leigi bara út eignina mína. Það er jú eitt af því sem fólk vill fá með því að eignast fasteign, þ.e. frelsið til að ráðstafa þeirri fasteign. Það er nokkuð sem maður getur almennt ekki gert á leigumarkaði, alla vega ekki að miklu leyti, þannig að vandinn er enn þá til staðar. En það er gott að vita af þessu og ég færi hv. þingmanni þakkir fyrir það.

Hvað varðar það að stýra búsetunni þá eru öll úrræði þannig að þau hafa einhver áhrif á markaðinn, stýra honum einhvern veginn. Það er alveg rétt. En við ættum að jafnaði að gera sem minnst af því. Um leið og við byggjum t.d. nýtt hverfi erum við að búa til nýjan valmöguleika í markaðskerfi sem fer út fyrir kassann sem yfirvöld hugsuðu sér. Dæmi: Við höfum góð rök fyrir því að skilyrða úrræðið við nýjar fasteignir. Svo bendir einhver á að það gæti verið rökrétt að láta það einnig gilda um íbúðir sem eru mjög vel og mikið upp gerðar. Það er rökrétt. Þá þurfum við að bregðast við því. Á frjálsum markaði þarf ekki að bregðast við því. Þá er uppgerða íbúðin einfaldlega metin á sama virði og ný eign vegna þess að hún er meira virði. (Forseti hringir.) Það er heppilegt ef við komumst hjá því að taka svona ákvarðanir sjálf. Það er ekki víst að það sé alltaf mögulegt. Ég vona að þessi svör svari spurningum hv. þingmanns.