150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[17:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við stórt og mikið mál þó að það sé kannski ekki umfangsmikið. Frumvarpið sjálft er ekki nema fjórar greinar en innihaldsmikið og getur haft mikil áhrif á marga. Það skiptir miklu máli að það sé vel unnið og því lýsi ég ánægju minni með þann tíma sem við fengum í sumar til að melta málið og fara yfir það og fá svo tækifæri til að gera það betur úr garði núna en við hefðum gert í þeirri tímaþröng sem við vorum í snemmsumars.

Það eru nokkur atriði sem við höfum fjallað um núna í síðari meðferð málsins og höfum gert töluverðar breytingar til batnaðar. En í máli eins og þessu þar sem við erum að búa til nýtt húsnæðiskerfi sem er á mjög breytilegum húsnæðismarkaði og margar breytur sem geta haft áhrif á framgang málsins, held ég að reynslan þurfi að kenna okkur ýmislegt svo við getum hnýtt alla hnúta í því. Vissulega er svolítið um reglugerðarheimildir og frekari útfærslur og annað slíkt. En það er mikilvægt að hafa frumvarpið eins skýrt og hægt er og hefur verið reynt að útskýra það töluvert í meðförum nefndarinnar. Eins og fram kom áðan komu drög að reglugerð og annað slíkt, en einnig hefur því verið bætt inn í málið að það þurfi að vera gert í samráði við aðra ráðherra sem fara með fjármál ríkisins og fjármálastöðugleika og jafnframt að leita þarf umsagnar Seðlabankans áður en nokkrar breytingar verði gerðar. Allt er þetta gert til þess að ekki verði óeðlileg áhrif á fasteignamarkaðinn.

Ég vil geta þess, af því að hér hefur aðeins verið talað um að það vanti greiningar, að það er þó jákvætt að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem er ný stofnun sem mun vinna mest með þessi lög, er orðin til. Hin nýja stofnun er komin með aukið hlutverk í að gera greiningar á húsnæðismarkaði. Það hefur verið gert undanfarin ár, Íbúðalánasjóður, forveri hinnar nýju stofnunar, hefur gert það og svo nú hin nýja stofnun. Þannig að sjaldan hefur verið til jafn mikið af greiningum og í dag og töluvert af þeim kom fyrir nefndina í minnisblöðum og öðru sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur kynnt fyrir nefndinni, bæði áður en þetta mál kom fram og einnig í meðförum málsins, þannig að við erum ekki að renna blint í sjóinn.

Ég vil þó byrja á að segja að það sem er kannski mesta óvissan í þessu máli er framboðið og eftirspurnin, hversu mikil eftirspurn verður eftir hlutdeildarlánunum, hversu margir vilja eða þurfa að nýta sér þetta úrræði til að eignast sína fyrstu eign eða eignast húsnæði aftur eftir fimm ár án þess að eiga húsnæði. Og hvað eru margir fyrstuíbúðarkaupendur? Það er ein breytan í þessu. En hin stóra breytan er hversu mikið af hagkvæmu húsnæði mun verða í boði. Einhvern veginn er mín tilfinning sú að það er það sem muni ráða því hvernig úrræðið gengur. Hvað mun byggingariðnaðurinn skaffa margar íbúðir fyrir úrræðið eða þannig að úrræðið verði til? Þar af leiðandi tel ég minni líkur á því að þessar 400 íbúðir, eða 4 milljarðar sem gert er ráð fyrir, dugi ekki af því að það er algjörlega óljóst hvort að byggingariðnaðurinn nái að framleiða 400 íbúðir sem fólki standa til boða, sem vill nýta sér þetta úrræði, af því að þær hagkvæmu íbúðir sem byggðar verða, verða á almennum markaði. Þar af leiðandi getur hver sem er sem tekur þátt á almennum markaði og ætlar að kaupa sér hagkvæma íbúð án hlutdeildarláns, keypt íbúðina áður en sá sem ætlar að nýta sér hlutdeildarlán getur keypt hana. Þannig að vissulega þarf þá byggingariðnaðurinn að framleiða mun fleiri en 400 íbúðir til þess að fjárheimildir úrræðisins verði fullnýttar. Og svo erum við líka að heyra þessa dagana, og það er náttúrlega breytilegt eftir tímabilum, að fyrstuíbúðarkaupendur hafi aldrei verið fleiri en nú. Það getur vel verið að það sé markaður þar fyrir einhverjar aðrar íbúðir en akkúrat hagkvæmar íbúðir, jafnvel stærri íbúðir. Fyrstu kaupendur vilji horfa til framtíðar og vilja kannski hafa aðeins meira íburð eða vilja kaupa sér notað húsnæði og gera það upp, eða vilja kannski búa í einhverju ákveðnu hverfi og svoleiðis. Þá getur vel verið að byggingariðnaðurinn elti frekar þá eftirspurn en hagkvæmiíbúðirnar af því að þar eru meiri skilyrði. Þannig að það verður svolítið fróðlegt að fylgjast með þessu.

Varðandi framboð af hagkvæmu húsnæði þá mun líka skipta gríðarlegu máli hvernig sveitarfélögin mæta úrræðinu. Verða þau tilbúin með lóðir þar sem mögulegt er að byggja hagkvæmt húsnæði? Verða til nægilega margar lóðir? Hvað munu þær lóðir kosta og hvaða innviðagjöld fylgja þeim? Ef skortur er á lóðum, þær eru dýrar, skipulagið gerir ýmsar kröfur til bygginganna sem verða reistar á þeim og svo eru himinhá innviðagjöld, gæti orðið erfitt að byggja hagkvæmar íbúðir í slíku sveitarfélagi. Svona lagað mun skipta miklu máli.

En ef framboðið verður nægt og eftirspurnin mikil er algerlega ljóst að þeim réttindum, sem verið er að búa til hér, verður úthlutað á skynsamlegan, fyrirsjáanlegan og sanngjarnan hátt þannig að jafnræðis sé gætt. Eins er mikilvægt að þeir sem bjóða fram íbúðirnar keppi á sanngjörnum og gagnsæjum markaði um að selja íbúðirnar í gegnum þetta úrræði.

Því tel ég eina mikilvægustu breytinguna sem við höfum lagt til að í staðinn fyrir að treysta á fyrstur kemur, fyrstur fær-fyrirkomulagið, að við settum það inn að þessu yrði úthlutað jafnt yfir til íbúa yfir tveggja mánaða tímabil, þannig að þetta væru um 80 íbúðir á tveggja mánaða fresti. Þá getur orðið meira svigrúm til að bíða eftir eign sem fólk vill frekar fá og það þarf ekki að drífa sig fyrri part árs af ótta við að allt úrræðið verði ekki lengur fyrir hendi seinni part árs. Það myndast heldur ekki jafn mikill þrýstingur ef allt myndi klárast fyrri part ársins þannig að bæta þurfi í úrræði seinni part ársins, þetta verði allt jafnara. Þannig að ég tel þetta gríðarlega mikilvægt. Hvert lánsloforð mun gilda í um þrjá mánuði. Ef það er umframeftirspurn í hverri úthlutun er gert ráð fyrir því. Það er útlistað betur í reglugerð, dregið verður á milli umsækjenda og annað slíkt. Þarna er búið að gera þetta skýrara og auka jafnræði, gagnsæi og fyrirsjáanleika. Það skiptir miklu máli þegar um er að ræða takmörkuð gæði og það þarf að úthluta þeim.

Þá vil ég koma að því sem mikið hefur verið rætt hérna í dag, þ.e. að í staðinn fyrir að lánið gildi strax í 25 ár gildir það í tíu ár en það er hægt að endurnýja það til fimm ára þrisvar sinnum. Þetta er gríðarlega mikilvægt til þess að tryggja hagsmuni lántakenda. Þeir þurfa að taka upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilja halda áfram með úrræðið eða ekki. Þeir fara yfir eignamyndun sína, hvort það er hagkvæmara fyrir þá að greiða úrræðið upp eftir tíu ár eða óska eftir framlengingu til fimm ára og athuga þá eiginfjárstöðu sína og annað. Með þessum 20% hlut í húsinu, sama hlutfall og hlutdeildarlánið er, er lántakinn alltaf að deila eignamynduninni með ríkissjóði. Þannig að því fyrr sem viðkomandi kemst út úr úrræðinu, því minni fjármagnskostnað til ríkissjóðs borgar hann fyrir hlutdeildarlánið. Þess vegna vildum við gera það þannig að það þyrftu allir að taka ákvörðun um að endurnýja lánið og fara í gegnum ferlið til þess að þeir væru ekki lengur inni í úrræðinu en hagkvæmt væri fyrir þá. Það væri að þeirra ósk, lántakendanna sjálfra. Það er mjög mikilvægt. Reynslan frá Bretlandi sýnir að þar fóru flestir úr úrræðinu eftir um fimm ár, mun fyrr en allir bjuggust við.

Ég held að þetta muni alls ekki auka flækjustig. Þetta mun tryggja það að fleiri meti það sem svo að það komi þeim betur að fara fyrr út úr úrræðinu af því að þeir deila alltaf ávinningnum af 20% af húsnæðinu eða samsvarandi hlutfalli af hlutdeildarláninu með ríkissjóði. Talið er að þessi eignamyndun taki sjö til tíu ár. Þess vegna eru höfð tíu ár þarna, það er ástæðan fyrir því.

Þá vil ég líka geta þess hvað þetta varðar að það hefur aldrei verið auðveldara að endurfjármagna íbúðarhúsnæði en í dag. Búið er að afnema stimpilgjöld af lánsskjölum. Vextir eru lágir. Það er samkeppni milli lífeyrissjóða og banka um að lána, þannig að það er orðið mun auðveldara og húsnæðislánamarkaðurinn hefur lagast og breyst töluvert á undanförnum árum. Því verður að hafa það í huga hér að það er orðið allt annað og auðveldara í dag að endurfjármagna en verið hefur.

Með það í huga er það líka mikilvæg breyting að lengja lánstímann upp í 40 ár. Meginreglan er að lánstíminn sé ekki lengri en 25 ár, en hægt er að óska eftir undanþágu frá því og fá 40 ára lán og samt vera með hlutdeildarlán. Ég get alveg sagt það að mér finnst persónulega ekki ráðlegt að skylda fólk sem vill fá lán til 40 ára að vera með óverðtryggt lán, en þetta var niðurstaðan og ég fellst alveg á hana, Ég hefði viljað að fólk hefði sitt sjálfstæða val, sérstaklega af því að það er orðið auðvelt að endurfjármagna lán. En ef maður er með óverðtryggt lán getur maður fengið 40 ára lán, óski maður þess, og fær þá ráðgjöf frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um það. Þetta er mikilvæg breyting.

Við tókum út kröfuna um að greiða séreignarsparnað inn á lánið. Flestum ætti þó að vera orðið ljóst hversu hagkvæmt það er að nota séreignarsparnaðinn af því að maður getur tekið hann út skattfrjálst og lagt hann inn á húsnæðislánið og lækkað höfuðstólinn og lækkað þar með fjármagnskostnaðinn og fengið skattafsláttinn. Þetta úrræði stóð bara öðrum hópnum til boða, þ.e. fyrstuíbúðarkaupendum, af því að sá sem átt hefur íbúð áður má ekki nýta sér þetta úrræði stjórnvalda. Meiri hluti nefndarinnar kemur með ábendingu um að það væri kannski ráð að skoða það að útvíkka þetta úrræði þannig að allir sem eru í úrræðinu hefðu tök á því að nýta sér séreignarsparnað sinn til hraðari eignamyndunar í húsnæði sínu. Þetta er eitthvað sem þarf að skoða. En það er mikilvægt að skylda ekki fólk til þess, heldur hafi það sjálft val. Að hafa frelsi til að velja er grundvallarregla sem við þurfum alltaf að hafa í huga, og við hugum að hér.

Þá var líka mjög góð lagfæring gerð, og ég held að þetta sé ein fyrsta lagasetningin á Alþingi sem tekur mið af því, að barn getur verið með búsetu hjá báðum foreldrum, sem ekki búa saman, foreldrar eru þá með sameiginlega forsjá og eru báðir með umgengnisrétt við barnið og þá megi taka mið af því. Það er mjög jákvæð rýmkun, sem ég fagna. Síðan er einnig sú rýmkun að ungt fólk geti óskað eftir að fá eins herbergis stærri íbúð en fjölskyldustærðin segir til um. Það er mjög líklegt að á þessum fimm til sjö ára tíma eignist fólk barn eða að einhver önnur breyting verði á fjölskylduhögum þess, þannig að það þarf ekki að fara út úr úrræðinu áður en eignamyndunin er orðin þannig að það geti fjármagnað sjálft stærra húsnæði. Það er önnur mjög jákvæð breyting í þessu.

Svo var fjallað töluvert um og gerðar breytingar varðandi endurgerð íbúða. Það var einskorðað við landsbyggðina þar sem víða um land er mikið af húsnæði sem ekki er nýtt og hefur ekki verið möguleiki á að selja á almennum markaði og annað slíkt eða hefur ekki verið í almennri umferð, eins og húsnæði á gamla varnarsvæðinu og á öðrum stöðum. Það er mjög mikilvægt að þessar eignir séu nýttar og að stuðlað sé að nýsköpun við endurgerð þeirra og þær gerðar hagkvæmari og nýttar til að fjölga íbúðum og búsetuúrræðum um allt land. Því var þetta rýmkað, t.d. ef um verulega endurgerð er að ræða sem jafna má við nýbyggingu eða að íbúðirnar eru nánast gerðar fokheldar og fara í mat að nýju. Það var ein mælingin sem var rædd í þessu tilliti. Það er mjög jákvætt að þetta sé komið inn og mun auka líkurnar á því að úrræði dreifist víðar um landið og hafi jákvæð áhrif á íbúðamarkaðnum víðar.

Þá er ég búinn að fara yfir helstu punktana og vil segja að búið er að fara vel yfir þetta, gera þetta gagnsærra og skýrara. Búið er að tryggja að haft verður samráð við Seðlabankann og þann ráðherra sem fer með fjármálastöðugleika í fjármálum ríkisins, þannig að ekki er verið að auka á áhættu ríkissjóðs og ekki eru gerðar neinar breytingar sem hafa óeðlileg áhrif á fasteignamarkaðinn þannig að Seðlabankinn þarf ekki að grípa til stýritækjaúrræða með hækkun vaxta út af þessu úrræði.

Ég tel að þeir fjármunir sem áætlaðir eru í þetta verkefni muni gagnast vel, þannig að ég vona að þeir muni duga. Því vona ég að þetta úrræði muni ganga vel þannig að hægt sé að mæta vilja almennings til að eignast eigin íbúð. Mikill meiri hluti þeirra sem eru á leigumarkaði, yfir 85%, vill eignast íbúð og að því eigum við að stuðla. Ég vona að þetta frumvarp verði til þess að auka framkvæmdastig nú þegar hagvöxtur hefur dregist saman, og hjálpi okkur að auka hagvöxtinn og setja innspýtingu í byggingariðnaðinum. Ég vona að þetta verði til þess að fasteignamarkaðurinn verði stærri og heilbrigðari og að fleiri komist í eigið húsnæði. Þá höfum við unnið gott dagsverk á Alþingi.