150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[17:56]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvar hv. þingmanns. Áætlað er að úrræðið sé til tíu ára og því er eðlilegt að endurskoða það töluvert fyrir fyrsta áætlaðan tíma. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að endurskoða það reglulega og mjög fljótt. Eins og ég talaði um í upphafi erum við tiltölulega nýbyrjuð á að gera víðtækar greiningar á þessum markaði. Hann breytist hratt og það er töluvert af reglugerðarheimildum í frumvarpinu. Því tel ég fullkomlega eðlilegt að við séum tilbúin að bregðast hratt við í svo stóru hagsmunamáli sem fasteignamarkaðurinn er. Þótt sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega höfuðborgin, geti verið mjög svifasein í skipulagsmálum og tekið sér langan tíma býst ég við að sveitarfélögin í kringum höfuðborgarsvæðið ættu alla vega að vera fljót til og eru jafnvel tilbúin með hverfiskipulag nú þegar. Úrræðið er nú þegar fjármagnað þannig að reynsla ætti að koma á það fljótlega. Ég sé því ekkert óeðlilegt við að við viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur og skoða úrræðið fljótt.