150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[17:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú heyrist mér hv. þingmaður og ég hafa ólíkan skilning á gildistíma úrræðisins. Ég skil frumvarpið, eins og það kom fram, þannig að eftir tíu ár hafi átt að endurskoða það, en ef ástæða þætti til að halda því áfram gæti það gilt áfram varanlega. Ef enn væri þörf í samfélaginu fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir fólk sem á því þarf að halda, væri hægt að viðhalda verkefninu lengur en þau tíu ár sem kveðið er á um í frumvarpinu. En nú er búið að breyta þessum tíu árum í heil þrjú ár. Ég er búinn að renna í gegnum allar umsagnir og ég sé hvergi neitt ákall um þetta. Gæti hv. þingmaður upplýst mig um ástæðuna? Hvaðan kom hugmyndin? Hvaða þörf er verið að svara með því færa þetta sjö ár fram í tímann?