150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[18:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég var ekki að tala um fjárhagsstöðu hv. þingmanns, ég var að tala um orðræðuna, grundvallarhugsunina í þessari breytingu meiri hlutans að stytta lánið úr 25 í 10 ár. Ég var að vitna í þau orð þingmannsins að grundvallarhugsunin væri að hafa frelsi til að velja um lán, að hafa frelsi til að velja um það hvort fólk gengur út úr svona félagslegu úrræði eða ekki. Ég var að benda hv. þingmanni á að það frelsi er ávallt til staðar í öllum þeim viðskiptum sem maður á við lánastofnanir. Maður getur hvenær sem er gengið út úr úrræðum en hér er verið að segja að lánið skuli uppgreitt við sölu eða að 10 árum liðnum. Lánastofnuninni er hins vegar veitt heimild til að endurnýja lánið, sæki viðkomandi um það. En það er engin slík skylda sett í ákvæðið. Það stendur hvergi að sæki viðkomandi um það skuli lánastofnunin veita áframhaldandi heimild til þátttöku í úrræðinu. (Gripið fram í: Jú …) Það er ekkert slíkt. Þetta er heimildarákvæði og heimildarákvæði í lögum eru túlkuð þröngt. Þannig er lögfræðin og það veit hv. þingmaður.

Ég heyri að framsögumaðurinn dæsir hér í salnum og segir: Jú, víst er það skylda. En þá ætti að standa þarna „skal stofnunin veita lántaka og umsækjanda lánsins áframhaldandi lán“. Hér er heimildarákvæði. Ef það er skilningur meiri hlutans að það sé skylda stofnunarinnar að veita áframhaldandi lán þá skal það standa í lagatextanum af því að það eru lögin sem stofnunin fer eftir.